3.4 C
Selfoss
Home Fréttir Til lengri tíma litið

Til lengri tíma litið

0
Til lengri tíma litið

Óskandi væri að vitundin um sjávarsíðuna og söguna sem hún ber með sér verði brátt eitthvað sem ýtir við hugmyndaauðgi ráðamanna á svæðinu. „Íslensk náttúra er sem fyrr stærsta aðdráttaraflið, og íslensk menning og saga laðar ekki síður að ferðamenn en um 40% erlendra ferðamanna sem koma til Íslands nefna íslenska menningu og sögu sem einn af áhrifaþáttunum fyrir heimsókn sinni”. (Ferðamálastofa, 2014).

Ég tek heilshugar undir orð Sigurjóns Vídalíns Guðmundssonar í innlegginu „Miðbærinn okkar ” (Dagskráin 24.08.17) þar notar hann myndlíkinguna „Að skreyta sig með stolnum fjöðrum“ sem ekki er ofsögum sagt þegar hugmyndirnar um að byggja eftir gömlum fyrirmyndum á miðpunkti Selfossbæjar eru annars vegar.

Stjarnfræðilegar upphæðir yrðu notaðar til þess að búa til einhvers konar Disneyland í hjarta bæjarins. Ef eyða ætti fjármagni í álíka smekkleysu þá hlýtur maður að spyrja hvort ekki séu nægilega bráðaðkallandi mál þar sem fjármagn þarf til að leysa í íslensku þjóðfélagi…og læt ég lesendur þessa innleggs um að íhuga hvaða mál… Það verður heldur aldrei hægt að flytja söguna úr stað. Þess vegna getur það aldrei orðið annað en fúsk þegar troða á fyrirmyndum gamalla húsa sem hönnuð yrðu eftir sögulegum byggingum víðs vegar af og það á reit, sem svo sannarlega ætti að fá að njóta sín eins ósnortinn og unnt er.

Eitt og sér – að hlutfallslega lítið rími yrði nýtt undir slíkt sem varla einu sinni getur talist hugmynd er einfaldlega fráleitt. Þar að auki heyra slíkar hugmyndir eins og þær sem hér eru á ferðinni nefninlega að mestu stórborgum til; stórborgum sem urðu fyrir hrottalegum eyðileggingum í stríðum á tuttugustu öldinni. Er hér ekki ansi grunnt á einhverju sem getur kallast sýn og ekki hafa íbúar svæðisins heldur verið með í ráðum að minsta kosti ekki hingað til – þó svo að svæðið, sem um ræðir sé að stórum hluta til í eigu sveitarfélagsins? Og hvernig getur það verið að skipulagsvald miðbæjarins sé í höndum þeirra sem standa á bak við þessi vægast sagt einkennilegheit um nýtingu reitsins?

Ég tek líka undir þá skoðun sem kom fram í Dagskránni að varðandi uppbyggingu á miðbænum hlýtur að vera farsælast að greina þarfir og óskir íbúana og fá þá með í að móta meiri heildstæða stefnu þannig að sátt verði um sem sameinar í stað þess að sundra.

Bergljót Kjartansdóttir
Búðarstíg 12, Eyrarbakka