3.4 C
Selfoss
Home Fréttir Vilja fleiri hjúkrunarrými í Árborg

Vilja fleiri hjúkrunarrými í Árborg

0
Vilja fleiri hjúkrunarrými í Árborg

Bæjarráð Árborgar hefur ítrekað beiðni sína til heilbrigðisráðuneytisins þess efnis að fyrirhugað hjúkrunarheimili á Selfossi, sem nú er í undirbúningsferli, verði hannað miðað við að rúma 60 einstaklinga í hjúkrunarrýmum, en ekki 50 eins og kveðið er á um í samningi aðila.

Núverandi áætlun um 50 rými gerir ráð fyrir að rýmum á Suðurlandi fjölgi um 15, þar sem 35 rými sem voru fyrir á Blesastöðum og Kumbaravogi gangi inn í hið nýja heimili. Í áskorun bæjarráðs Árborgar til heilbrigðisráðherra, frá 31. ágúst sl., segir að fjölgunin sé engan veginn næg til að mæta þörf fyrir hjúkrunarrými á svæðinu. Þá verði að horfa til þess að brýn þörf sé fyrir rými til að nýta til hvíldarinnlagna í Árnessýslu. Íbúum fjölgi mjög hratt í sýslunni og brýnt sé að horfa til framtíðar hvað fjölda rýma varðar og þeirrar hagkvæmni sem fælist í því að reka fleiri rými í einni og sömu einingunni.

Bæjarráði Árborgar þykir miður að niðurstaða varðandi fjölgun rýma liggi enn ekki fyrir, nú þegar talsvert sé liðið á undirbúningsferlið og skil gagna vegna hönnunarsamkeppni fara fram um þessar mundir. Í bókun segir að bæjarráði þyki það bera vott um skammsýni að ekki sé tekin ákvörðun um fjölgun rýma.