-1.1 C
Selfoss

Pétur G. Markan ráðinn bæjarstjóri í Hveragerðisbæ

Vinsælast

Pétur G. Markan hefur verið ráðinn sem bæjarstjóri í Hveragerðisbæ. Tillaga þess efnis var samþykkt með fimm atkvæðum meirihluta Framsóknar og lista Okkar Hveragerðis á bæjarstjórnarfundi í dag. Fulltrúar minnihlutans í D‐listanum sátu hjá við afgreiðslu tillögunnar.

Pétur hefur sinnt embætti biskupsritara og stýrt samskiptamálum kirkjunnar og verið sem slíkur hluti af yfirstjórn Þjóðkirkjunnar. Þar á undan var Pétur sveitarstjóri Súðavíkurhrepps og leiddi hagsmunabaráttu sveitarfélaga á svæðinu sem formaður fjórðungssambands Vestfjarða og formaður Vestfjarðarstofu.

Pétur er kvæntur sr. Margréti Lilju Vilmundardóttur og þau eiga þrjú börn; Hörð Markús, Sigrúnu Ísabellu og Úu Maríu.

„Framundan eru mikilvæg uppbyggingarverkefni sem öll eiga þann söng að efla velferð og þjónustu við íbúana og þau þarf að klára. Erindi okkar, sem að sveitarfélaginu standa, er að leiða kröftuglega, af fagmennsku og ábyrgð, framsækið sveitarfélag í vexti. Fulla ferð!“ segir Pétur, sem tekur við starfi bæjarstjóra þann 1. maí næstkomandi.

„Það er gríðarlegur fengur fyrir okkur að fá Pétur sem bæjarstjóra í Hveragerðisbæ enda býr hann yfir dýrmætri reynslu frá því að hann starfaði sem sveitarstjóri fyrir vestan og vann ötullega að hagsmunum sveitarfélaganna þar. Pétur kemur inn á spennandi tímum enda hefur uppbyggingin í sveitarfélaginu verið gríðarleg síðustu ár og framtíðin hér er björt,” segir Njörður Sigurðsson, forseti bæjarstjórnar Hveragerðisbæjar.

Nýjar fréttir