1.7 C
Selfoss

Framúrakstur við Austurveg á Selfossi setur barn í hættu

Vinsælast

Umferðarhraði og umferðar­hegðun á Austurvegi, sem liggur gegn um Selfoss, er ekki alltaf til sóma, ef marka má umræður íbúa Árborgar á Facebook. Margoft hefur verið bent á það í greinarskrifum og á íbúasíðum að úrbóta sé þörf í ýmsum málum sem snúa að umgjörð Austurvegarins. Í liðinni viku varð atvik sem hefði getað farið illa og vakti athygli á Facebook-síðum íbúanna.
Atvikið sem um ræðir varð snemma morguns. Enn var talsvert dimmt. Barn var að ganga yfir Austurveginn við Landsbankann, en bílar úr báðum akstursstefnum höfðu stöðvað til að hleypa barninu yfir götuna. Engu að síður kemur aðvífandi bíll á austurleið og tekur hægra megin fram úr þeim sem stöðvað hafði við gangbrautina. Sem betur fer að sögn sjónarvottar slapp það fyrir horn að þessu sinni að slys yrði.

Íbúar tala fyrir daufum eyrum

Að undanförnu hafa íbúar á Selfossi kvartað við blaðið og lýst yfir áhyggjum sínum af veginum með ýmsum hætti og að þeirra sögn virðist ganga hægt að gera þær bragarbætur á veginum eins og eftir hefur verið kallað. „Ég hef talað fyrir daufum eyrum bæði sveitarstjórnarmanna í Árborg og Vegagerðarinnar,“ segir Ásgeir Valdimarsson íbúi við Austur­veg. „Það endar með því að það verði einhver sem slasast illa og þá hlaupa allir til.“ Ásgeir hefur haldið málefnum eldri borgara á Selfossi og Austurvegarins á lofti og er umhugað um að til ráðstafana verði gripið en er ekki sérstaklega vongóður um að það verði í bráð. „Það er hagsmunamál fyrir þá eldri borgara sem hér búa að geta komist þokkalega örugglega út í búð. Við, þau eldri og þau yngri eigum þarna sameiginlegt hagsmunamál sem brýnt er að verði lagað. Miðað við viðbrögðin á ég nú ekki von á því að menn komi hingað hlaupandi, sem er vont!“

Umferðarmenning ekki alltaf til sóma á veginum

„Austurvegurinn er þjóðvegur í þéttbýli og því í umsjón og á forræði og ábyrgð Vega­gerðarinnar. Eins og Sel­fyss­ingar vita er umferðin um Austurveginn gríðarlega mikil. Vegurinn sem slíkur er frekar breiður og fólk getur gert einhverjar kúnstir sem ekki er ætlast til. Á gangbrautinni við Landsbankann þarf því að setja þrengingu þar sem gangbrautin er staðsett og betri merkingar, því þar er gönguleið barna á leið í skóla og íþróttastarf,“ segir Kristinn M. Bárðarson, öku­kennari á Selfossi.
„Hitt er svo annað mál að ég tek undir það að umferðar­menningin er nú ekki alltaf eins og til er ætlast en við ættum öll að líta í eigin barm og huga vandlega að þessu því það verður ekki aftur tekið ef alvarlegt slys verður.“

Nýjar fréttir