8.9 C
Selfoss
Home Fréttir Mataræði á meðgöngu hefur áhrif

Mataræði á meðgöngu hefur áhrif

0
Mataræði á meðgöngu hefur áhrif
Heilbrigðisstofnun Suðurlands Selfossi. Ljósmynd: ÖG.

Sífellt kemur betur í ljós hvað mataræði hefur gríðarlega mikil áhrif á líðan okkar og heilsu. Þau áhrif koma fram strax á meðgöngunni og nýjar rannsóknir leiða líkur að því að það sem verðandi móðir neytir á meðgöngu hafi áhrif á barnið alla þess ævi. Meðgangan er þvi kjörinn tími fyrir alla fjölskylduna að taka til í mataræðinu og gera þær lífsstílsbreytingar sem þarf til að bæta hag og heilsu til framtíðar.

Í dag eru uppi fleiri straumar og stefnur í næringarmálum en áður hafa þekkst og getur verið erfitt að fóta sig í þeim frumskógi „næringarráðgjafar“ sem dembist á mann með auglýsingum og blaðagreinum hvers konar. Það er lágkolvetnamataræði, steinaldarmataræði og vegan mataræði ásamt alls kyns kúrum, fæðubótarefnum og vítamínblöndum sem okkur er talin trú um að séu nauðsynleg fyrir líf okkar og heilsu.

En mataræði þarf ekki að vera flókið til að vera gott fyrir okkur. Að leiðarljósi getum við haft að því nær uppruna sínum sem fæðutegundin er, því hollari er hún. Ganga má út frá því sem vísu að matur sem er unninn og blandaður í verksmiðju (jafnvel í langtíburtistan) er ekki jafn góður fyrir okkur og matur sem kemur beint úr garðinum eða frá bóndanum – jafnvel þótt hann sé vítamínbættur. Móðir jörð hefur nefnilega tekið milljónir ára í að hanna okkur á þann veg að við nýtum matinn best eins og hann kemur fyrir af jörðinni/skepnunni og það ætti að fara varlega í að fikta í því sem vel er gert.

Mataræði á meðgöngu er ekki á nokkurn hátt frábrugðið hollu mataræði á öðrum tímum lífsins að öðru leiti en því að verðandi móðir þarf aðeins meira af próteini og orku.

Uppistaða næringar á meðgöngu (og alla hina dagana) ætti því að vera:

Ferskt grænmeti í ómældum mæli – með öllum máltíðum og sem millimál – hrátt eða matreitt að vild.

Próteinríkar afurðir eins og kjöt, fiskur, egg og ósykraðar mjólkurvörur eða tofu, seitan, baunir og linsur fyrir þá sem ekki borða dýraafurðir. Prótein er aðalbyggingarefni líkamans og talið að konur á meðgöngu þurfi 75 til 100 grömm af próteini á dag.

Gróft brauð, kartöflur, gróf grjón og fræ af ýmsu tagi sem meðlæti.

Olíur og fita sem útálát og viðbit. Bestar eru ólívuolía og kókosolía því þær innihalda mest af omega olíunum sem eru okkur svo nauðsynlegar, en borða ætti dýrafitu í hófi.

Ávextir og ber sem millimál og eftirréttir.

Besti drykkurinn er vatn, u.þ.b. 2 lítrar á dag.

Á Íslandi þarf líka að taka lýsi, eða annan góðan D-vítamíngjafa, daglega alla ævi og gott er að konur taki fólínsýru allt frjósemisskeiðið til að fyrirbyggja mögulega miðtaugakerfisgalla hjá fóstri.

Gæta þarf hófs við neyslu sykurs. Sykurneysla veldur sveiflum í blóðsykri – ekki bara móðurinnar heldur einnig barnsins – og langvarandi sykurneysla getur leitt til þess að fólk þrói með sér sykursýki. Börn sem hafa fengið mikinn sykur á meðgöngunni eru þar ekki undanskilin.

Það sem ætti að forðast að neyta á meðgöngu er:

Áfengi – veldur fósturskaða, jafnvel í litlum mæli.

Lifrarafurðir – vegna hás A-vítamíninnihalds sem getur valdið fósturskaða.

Túnfiskur, hvalkjöt og skelfiskur – vegna mikils kvikasilfursinnihalds.

Hráar dýraafurðir – vegna hættu á bakteríum og sníkjudýrum sem valda fósturskaða.

Koffín- og orkudrykkir – vegna mögulegra áhrifa á miðtauga- og æðakerfi fóstursins.

Matur á duftformi, s.s. próteinduft, aminoduft, duft sem notað er í stað máltíðar – inniheldur mögulega efni sem geta valdið fósturskaða.

Gervisykur – vegna mögulegrar skaðsemi á taugakerfi fósturs.

Rotvarnarefni – geta mögulega skaðað fóstur.

Allri lyfjanotkun ætti að sleppa nema í samráði við lækni/lyfjafræðing/ljósmóður.

Vakni spurningar um mataræði og næringu á meðgöngunni er um að gera að bera þær undir ljómóður í mæðravernd. Að auki má benda á bækling landlæknis um mat og meðgöngu sem hægt er að finna á www.landlaeknir.is og fróðlega vefsíðu sem helguð er næringu móður og barns – www.nmb.is

Dagný Zoega, ljósmóðir á Heilbrigðisstofnun Suðurlands.