11.7 C
Selfoss

Árleg fjáröflun Sambands Sunnlenskra Kvenna fyrir sjúkrahússjóð SSK

Vinsælast

SSK eru samtök 25 kvenfélaga í Árnes- og Rangárvallasýslu. Árlega afla kvenfélagskonurnar  fjár til Sjúkrahússjóðs SSK með sölu á kærleiksenglum og jólakortum.

Kærleiksengill ársins 2021 er með líku sniði og síðasta ár. Glerlistakonan Eva Ruth Gísladóttir á Selfossi hannar og framleiðir engilinn, hún framleiddi einnig engilinn fyrir árið 2020. Kærleiksmynd af vængjum sem umvefja og vernda jörðina okkar er sandblásin í glerskífu sem kemur í fallegri gjafaöskju. Kærleiksorðin, sem fylgja eru „Lífið er kærleikur“.

Jólakortin eru með hátíðlegri mynd frá listakonunni Sigrúnu Jónsdóttur, sem er í Kvf. Hallgerði í Fjótshlíð.  Hún lagði einnig til mynd á jólakortið 2011 og er kortið í ár í sama stíl hvað varðar útlit og efnistök. Sjá nánar um jólakortið í grein frá Sigrúnu, sem birtist í blaðinu.

Bæði englar og jólakort eru til sölu hjá kvenfélögunum og einnig í móttöku HSu á Selfossi og hjá heilsugæslustöðvum HSu.

Covid19 faraldurinn hefur lagt hömlur á allt félagsstarf undanfarna mánuði og er starfsemi kvenfélaganna þar engin undantekning.  Í skugga samkomutakmarkanna má segja að allar hefðbundnar fjáraflanir hafi legið niðri.  Þó hafa nokkur kvenfélög farið nýjar leiðir og fundið ráð til að afla fjár til góðra verka  t.d. fjáröflunargöngur og fjáröflunarprjón.

Öll kvenfélögin innan SSK styðja myndarlega við brýn málefni í sínu nærumhverfi og gefa rausnarlegar gjafir til líknar-, mennta- og menningarmála. Árið 2019 var verðmæti þeirra skv. ársskýrslum tæplega 14 milljónir.

Heilbrigðisstofnun Suðurlands hafði samband við SSK nýlega og óskaði eftir fjárstuðning til kaupa á súrefnismettunarmælum og öðrum búnaði sem skortur var á vegna faraldursins.  Stjórn SSK samþykkti að veita 1.5 milljónum úr Sjúkrahússjóðnum til þessa verkefnis og hefur gjöfin þegar verið afhent HSu.

Það er von okkar að íbúar á Suðurlandi og aðrir velunnar HSu og SSK styðji við þetta góða starf með kaupum á Kærleiksenglum og jólakortum. Fyrirtæki og stofnanir sem hafa áhuga á að styðja við þetta verkefni með kaupum á kortum og englum geta haft samband við kvenfélögin á sínu svæði og/eða formann SSK, í netfangið formadurssk@gmail.com .

Gildisorð kvenfélagstarfs í landinu eru Kærleikur  Samvinna  Virðing. SSK hefur látið sig varða ýmis málefni er varða lýðheilsu og forvarnir. Í tengslum við þau voru valin einkunnarorð starfsársins  2019-2020.   Virðum veröld – Vöndum valið – Nýtum nærumhverfi.

 

Nýjar fréttir