1.1 C
Selfoss
Home Fréttir Heilsan sæmileg þótt sjónin sé farin að daprast

Heilsan sæmileg þótt sjónin sé farin að daprast

Heilsan sæmileg þótt sjónin sé farin að daprast
Æsa Guðbjörg Guðmundsdóttir er 100 ára í dag, þann 29. apríl 2020.

Í dag, þann 29. apríl er Æsa Guðbjörg Guðmundsdóttir 100 ára. Hún fæddist að Egilsstöðum í Villingaholtshreppi þann 29. apríl 1920. Æsa er sú þriðja yngsta í hópi tíu systkina sem öll eru látin, en úr þessum systkinahópi er Æsa önnur til að ná hundrað ára aldri. Hún ólst upp á hefðbundnu sveitaheimili, en foreldrar hennar voru Guðmundur Ágúst Eiríksson, bóndi og Kristín Gísladóttir, húsfreyja. Skólaganga Æsu Guðbjargar var með þess tíma hætti en hún sótti farskóla að Forsæti, Kolsholti og Villingaholti í sömu sveit fram að fermingu. Annarri menntun var ekki til að dreifa.

Árið 1954 flutti Æsa með fjölskyldu sinni á Selfoss. Foreldrar hennar brugðu þá búi á Egilsstöðum. Hún hefur síðan búið á Selfossi. Þar hélt hún heimili með foreldrum sínum, en lengst af með Guðjóni bróður sínum, en hann lést 2001. Þau Guðjón bjuggu um árabil í sambýli með Kristínu bróðurdóttur sinni og hennar fjölskyldu. Síðan 2009 hefur Æsa búið á hjúkrunarheimilinu Ljósheimum á Selfossi. 

Stálminnug og afkastamikil prjónakona

Æsa hefur fram til þessa tíma verið við sæmilega heilsu þó sjón og heyrn séu farin að daprast. Æsa hefur ávallt verið hæglát í fasi, lengst af stálminnug á liðna tíma, nöfn og afmælisdaga ættingja, vina og samferðamanna. Áhugamál hennar í gegnum tíðina hafa snúið að prjónaskap, enda var Æsa afkastamikil prjónakona og seldi meðal annars lopapeysur um langt árabil. Þá eiga margir ættingjar og vinir eftir hana prjónles og prjón-aða ullarsokka. 

Ættingjar senda pakka og blóm

Í ljósi aðstæðna í þjóðfélaginu geta ættingjar og vinir ekki fagnað með henni á afmælisdeginum, en munu fagna með henni um leið og tækifæri gefst. 

Starfsfólk Ljósheima mun að sjálfsögðu brydda upp á einhverju og gera sér dagamun í tilefni dagsins. Dagskráin sendir Æsu og ættingjum hennar bestu afmæliskveðjur. -gpp