1.7 C
Selfoss

Fjallahjólakeppnin Rangárþing Ultra fer fram á föstudag

Vinsælast

Fjallahjólakeppnin Rangárþing Ultra fer fram í þriðja sinn, föstudaginn 14. júní nk. Keppnin er samstarfsverkefni Rangárþings eystra og Rangárþings ytra. Skipst er á að hefja keppni á Hellu og Hvolsvelli. Að þessu sinni er ræst frá Hellu kl. 19:00 og hjólað yfir á Hvolsvöll án viðkomu á þjóðvegi 1. Hjóluð er 50 km löng leið, 14 km á malbiki, 22 km á möl og 14 km á slóðum.

Nú þegar hafa um 80 manns skráð sig til keppni en enn er hægt að skrá sig á heimasíðu keppninnar á www.rangarthingultra.is. Skráningarfrestur er til kl. 23:30 fimmtudagskvöldið 13. júní.

Veitt verða verðlaun í fjórum flokkum, karla og kvenna. Mikill keppnisandi ríkir ár hvert, enda margir af bestu hjólreiðamönnum og -konum landsins nú þegar skráð til leiks.

Helsti styrktaraðili keppninnar er Sláturfélag Suðurlands sem sér um að metta keppendur og áhorfendur. Að keppninni koma einnig björgunarsveitirnar í Rangárvallasýslu, starfsmenn sveitarfélaganna, íþróttafélög og íbúar. Eftir keppni bjóða bæði sveitarfélögin upp á frítt í sund fyrir keppendur og aðstandendur.

Allar nánari upplýsingar um keppnina má finna á www.rangarthingultra.is

Nýjar fréttir