5.6 C
Selfoss
Home Fréttir Samkeppnin við snjallsímana

Samkeppnin við snjallsímana

0
Samkeppnin við snjallsímana
Ester Guðlaugsdóttir.

Markmið þessa pistils er að vekja athygli á snjallsímanotkun foreldra og hvernig hún getur haft áhrif á tengslamyndun foreldra og barna. Tengslamyndun er skilgreind sem tilfinningalegt samband á milli barns og foreldris og einkennist af því að barn leitar eftir nálægð við foreldri sitt. Samskipti augliti til auglits milli barns og foreldris eru undirstaða að vitrænum þroska, málþroska og tilfinningalegum þroska. Nú til dags ber mikið á snjallsímanotkun og alast því börn upp í stafrænum heimi þar sem tækni er orðin partur af samfélagi, menningu, heimili og skóla. Umræður um breytingar á samskiptum sem hafa orðið í kjölfar snallsímans eru orðnar áberandi og vert er að tengja þær við tengslamyndun, hvers vegna? Vegna þess að örugg tengslamyndun í frumbernsku eykur líkur á traustum tilfinningatengslum í framtíðinni. En hver eru þá áhrif snjallsímanotkunar á tengslamyndun foreldra og barna? Rannsóknir sýna fram á það að snjallsímanotkun getur haft áhrif á tenglsamyndun í aðstæðum þar sem foreldri er andlega fjarverandi sökum snjallsímanotkunar. Í slíkum aðstæðum getur barn upplifað óöryggi og höfnun ef snjallsímanoktunin leiðir til minni samskipta milli foreldris og barns.

Nærvera er grundvallaratriði þegar einstaklingar eiga í samskiptum og með henni verða sambönd nánari þegar samskipti án orða eiga sér stað eins og augnsamband, andlitssvipbrigði og líkamstjáning. Fyrsta aldursár barns lærir það að treysta umönnunaraðila um að grunnþörfum sé sinnt, það er því afar mikilvægt að barn upplifi öryggi í samskiptum en það upplifi ekki að það sé í samkeppni við snjallsíma. Börn sem upplifa skort á jákvæðum samskiptum og samveru við foreldra sína eru talin vera í áhættuhóp fyrir hegðunarerfiðleika. Góður grunnur að tengslamyndun er því afar mikilvægur fyrir komandi lífsskeið barns og vert er að huga að því að snjallsíminn má oft á tíðum bíða en barnið ekki.

Vonandi hefur þessi pistill vakið þig til umhugsunar um hugsanleg áhrif snjallsímanotkunar á tengslamyndun. Einnig langar mig til að beina athygli að því að fagaðilar sem vinna með foreldrum og börnum eru í kjöraðstöðu til að aðstoða foreldra við að vera meðvitaðri um snjallsímanotkun á heimili, aðstoða þá við að forðast átök og setja mörk varðandi snjallsímanotkun. Ég hvet alla til að huga að því að láta ekki rafræn samskipti ganga fyrir mannleg samskipti og þá sérstaklega í tengslum við börn.

Núna þegar jólin eru handan við hornið langar mig um leið og ég óska öllum gleðilegra jóla og farsældar á nýju ári að minna á það að njóta samverustunda til hins ýtrasta með ástvinum okkar yfir hátíðirnar. Að lokum langar mig til að skora á alla að tileinka sér símalausa sunnudaga á nýju ári og síðast en ekki síst minni ég á að við fullorðna fólkið erum fyrirmyndirnar.

Ester Guðlaugsdóttir, félagsráðgjafi MA hjá barnavernd Árborgar.