-6.1 C
Selfoss

Þétt setið á Vínstofunni í Friðheimum

Vinsælast

Þann 12. desember síðastliðinn komu drengirnir í hljómsveitinni Sambandið saman og héldu glæsilega jólatónleika á sviðinu á Vínstofunni Friðheimum. Uppselt var á tónleikana og húsið var þétt setið, þar sem gestir nutu bæði ljúffengs kvöldverðar og notalegra jólatóna í flutningi hljómsveitarinnar.

Hljómsveitin Sambandið samanstendur af meðlimum úr hljómsveitinni Koppafeiti ásamt nokkrum heimamönnum frá Reykholti og sveitum í kring. Allir eiga drengirnir það sameiginlegt að hafa brennandi áhuga á tónlist.

Ljósmynd: Hrafntinna Jónsdóttir.

Í hljómsveitinni eru þeir Arilíus Smári Orrason á trommum, Daníel Aron Bjarndal Ívarsson á gítar og söng, Hákon Kári Einarsson á hljómborði, gítar og söng, Ívar Dagur Sævarsson á gítar, synth og bakraddir, Magnús Skúli Kjartansson í söng, Ragnar Dagur Hjaltason á hljómborð, synth og bakraddir og Sólmundur Ingi Símonarson á bassa.

Söngvararnir skiptust á að leiða lögin og samanstóð dagskráin að mestu leyti af íslenskum jólalögum sem flestir Íslendingar ættu að þekkja vel. Þó tóku drengirnir eitthvað af sínum eigin lögum. Hákon og Ívar tóku lagið Á sömu leið sem strákarnir gáfu út núna á árinu. Söng þá Daníel einnig lagið sitt, Sumarást, sem hann samdi sjálfur fyrir þó nokkrum árum.

Ljósmynd: Hrafntinna Jónsdóttir.

Hjördís Katla Jónasardóttir var tónleikagestur kvöldsins. Hún steig á svið og tók nokkur lög með hljómsveitinni við góðar undirtektir. Þá fékk hljómsveitin einnig hann Þránd Ingvason sem brá á leik og tók að sér ýmis hlutverk í gegnum tónleikana. Tók Þrándur hlutverk Dengsa þegar þeir tóku lagið Alveg dagsatt, hlutverk Leppalúða og síðast en ekki síst hlutverk rjúpunnar á meðan á rjúpuveiðum stóð, svo eitthvað sé nefnt.

Ljósmynd: Hrafntinna Jónsdóttir.

Strákarnir brugðust svo sannarlega ekki tónleikagestum. Stemningin var einstaklega góð og ljóst er að tónleikagestir kunnu vel að meta jólaskemmtun drengjanna.

SEG

Nýjar fréttir