3.9 C
Selfoss

Vill að fólk fari heim með góða skapið

Vinsælast

Árið hefur verið viðburðaríkt hjá Daða Frey tónlistarmanni. Daði hefur síðustu mánuði verið á ferð og flugi, er nýlega kominn heim frá tónleikaferðalagi um Evrópu en er nú kominn heim á nýjar heimaslóðir. Hann og fjölskyldan hafa nýlega á árinu flutt frá Þýskalandi til Hveragerðis. Nú á næstu dögum er Daði að halda jólatónleikanna Þegar Daði stal jólunum.

Gott að spila á heimaslóðum

Daði hefur farið víða að syngja og spila, haldið fjóra tónleika í Bandaríkjunum og núna í haust var hann á Evróputúr.

Evróputúrinn spannaði sex vikur eða frá september í október og hélt hann samtals 31 tónleika. Daði segist hafa notið Berlínar sérstaklega, borgarinnar sem hann bjó í 11 ár áður en hann fluttist aftur til Íslands.
„Berlín var skemmtileg… það kom rosa mikið af liði sem við þekkjum þar. Svo leigðum við stað þar sem ég spilaði á og var með partý eftir á sem var mjög skemmtilegt.“ Hann hlær og bætir við í gríni: „Mikið af Íslendingum sem komu, kannski tveir Þjóðverjar.“

Daði segir að tónleikalega séð sé ekki mikill munur á að spila í Evrópu og Bandaríkjunum. „Sýningin og fólkið sem kemur er allt voða svipað, en það er allt annað að vera í Bandaríkjunum.“

Daði lýsir því hversu auðvelt sé að villast inn á kaffihús á röltinu í einhverri borg í Evrópu, en í Bandaríkjunum væri mestmegnis bara tekið leigubíl. Hann tekur þó fram að stórborgir í Bandaríkjunum eins og New York séu undantekning. „Mér finnst New York og LA mjög skemmtilegir staðir. Það er gaman að labba um þar. Mér finnst í hvert skipti sem ég kem til LA einhver ný tækifæri koma, það er alltaf eitthvað að gerast þar,“ segir Daði.

Sköpunarferlið

Daði segir sig missa öll tök á að semja þegar hann er á tónleikaferðalagi. „Ég ákvað það eiginlega á síðasta Evróputúr að sætta mig við það að það er bara svoleiðis. Ég ætla ekki að reyna einu sinni.“

Hann viðurkennir að áður fyrr hafi hann reynt að fara inn í túrana með stórar væntingar um að koma heim með fullt farteskið af nýju efni. En raunveruleikinn er sá að túrarnir eru líkamlega krefjandi. „Á síðasta Evróputúr voru 31 tónleikar… ef ég hefði unnið eitthvað í nýjum lögum líka hefði ég bara sprungið sko,“segir Daði. Hann segist honum finnast mun betra að semja heima og hann fá mun fleiri hugmyndir.

Daði segir það vera erfiðara að vera alltaf á tónleikaferðalagi eftir að hann eignaðist tvær dætur sínar. Hann segir að mesta áskorunin í þessum bransa sé að vera að heiman.
„Ef ég væri ekki með fjölskyldu og börn þá hugsa ég að ég gæti bara verið að túra alltaf. Árný kemur reyndar stundum með í ferð. Hún kom núna í viku af þessum sex vikum sem ég var að túra í Evrópu.

Þegar Daði stal jólunum

Jólatónleikarnir Þegar Daði stal jólunum hafa verið í fullum undirbúningi upp á síðkastið. Tónleikarnir eru 19. desember næstkomandi og eru haldnir í Gamla Bíói og hafa nú þegar verið haldnir á Akureyri á Græna hattinum 6. desember sl.. Daði er mjög spenntur og rifjar upp fyrsta árið sem hann hélt jólatónleika.

Daði hélt fyrst jólatónleika árið 2019. Á tímanum var Daði sífellt á fullu að gera ábreiður á lögum og fór að vinna meira með að gera ábreiðu á jólalögum. Þegar Daði stal jólunum voru svo haldnir í fyrra og snúa aftur í ár. Í ár stefnir Daði á að hafa jólatónleikana í svipuðum stíl og í fyrra en ætlar að bæta við aðeins meira af sínum eigin lögum.

Gestir á jólatónleikunum hans Daða mega ekki búast við kertaljósi og kósýheit. Markmið Daða er að reyna að mynda sömu stemningu og var í fyrra á jólatónleikunum en hann segir sig sjálfan ekki hafa búist við svona mikilli stemningu. „Þetta er bara sveitt djamm,“ segir Daði. Hann vill að fólk dansi og hafi gaman og komi ánægt heim af tónleikunum. „Ég vil bara að fólk sé í góðum fíling og fari heim af tónleikunum og hugsi hvað þetta var gaman.“

Við hverju má búast á tónleikunum?
„Það má búast við mér og það má búast við því að það verði spiluð jólalög og að ég syngi þau en síðast en ekki síst má búast við risa partýi.“

Frá Berlín til Hveragerðis

Daði og Árný fluttu síðastliðið vor til Hveragerðis eftir 11 ára búsetu í Berlín. Ákvörðunin snerist bæði um skólagöngu eldri dótturinnar og hvenær best væri að setjast að.
„Við ákváðum að flytja ekki beint inn í veturinn heldur að flytja í byrjun sumars og koma okkur aðeins fyrir fyrir veturinn,“ segir Daði, „Ég er mjög fegin núna að við gerðum það því það er orðið alveg grátt og dimmt á þessu landi núna. Þetta er fyrsti veturinn okkar hérna í 11 ár og maður finnur fyrir því.“ Hann segir sig og fjölskylduna vera að fíla Hveragerði vel. „Hveragerði er mjög þægileg staðsetning og það er einhver sjarmi yfir bænum,“ segir hann.

Í þau ár sem Daði og Árný bjuggu erlendis, héldu þau yfirleitt alltaf jólin hérna heima á Íslandi. Það var þó eitt árið sem þau héldu jólin úti í Berlín. Hann segir að helsti munurinn á jólunum úti í Berlín og á Íslandi hafi verið hvað allt var mikið rólegra úti í Berlín heldur en hérna heima. „Flestir vinir okkar í Berlín voru ekki þaðan, heldur annað hvort Íslendingar eða frá öðrum löndum í Evrópu eða frá Bandaríkjunum. En þessi jól voru þau farin heim svo það var rosa mikið bara við,“ segir Daði. „Það var mjög mikið bara næs og heima í kósý úti í Berlín, á meðan hérna á Íslandi er svo brjálað að gera um hátiðirnar og allir svo stressaðir.“

Aðspurður út í jólahefðir segir Daði sig halda upp á mjög hefðbundin jól. Þar sem fjölskyldan er að byrja núna að halda upp á jólin sjálf, efast Daði ekki um að jólahefðirnar hjá þeim eigi eftir að mótast. Hann segist þó alltaf hafa verið með Ris a la mande möndlugraut á jólunum og finnst honum það alltaf mjög hátíðlegt. „Ég veit ekki hvort það sé eitthvað sem fólk gerir ennþá, ég held að þetta komi frá Danmörku, ég ólst upp þar eða þar til ég var 9 ára og það er kannski einhver dönsk hefð sem ég er að vinna með.“

Föst á bát í þrjá tíma

Daði rifjar upp jólin í fyrra á Íslandi sem voru heldur eftirminnileg þegar þau fjölskyldan ætluðu að halda jólin í Flatey. Veðrið var ekki að gera þeim gott og það var spurning hvort báturinn myndi fara yfir höfuð. Þau ákváðu samt að láta á reyna án þess að vita hvort að báturinn kæmist í land. „Þeir voru ekki vissir um hvort þeir ætluðu að fara í land fyrr en við vorum bara komin fyrir utan Flatey. Við vorum komin hálfa leið með Baldri en það var svo vont í sjóinn að við þurftum að snúa við. Þannig við fórum bara svona í hring. Við þurftum að fara áfram yfir Brjánslæk og koma svo aftur til baka niður á Stykkishólm, svo við vorum alveg í einhverja þrjá klukkutíma í þessum bát, það var ekki næs,“ segir Daði og hlær.

Hvað næst?

Þrátt fyrir fullan undirbúning á jólatónleikum hefur Daði verið á fullu að semja í vetur. Hann er búinn að semja nýja plötu sem hann stefnir á að gefa út næsta vor. Platan sem mun heita Too much not enough inniheldur tólf lög.
„Ég er búinn með hana og búinn að fara með hana úr masteringu,“ segir Daði.
Það eina sem stendur eftir er að taka myndir og tónlistarmyndbönd fyrir plötuna.

Ef allar áætlanir ganga upp stefnir Daði einnig á að fara á nýjan túr á næsta ári að þessu sinni til Bandaríkjanna.

SEG

Nýjar fréttir

JÓLAHÚFA GUMMA LITLA

Jólahugleiðing

Ævintýri á Jólaey