Það er ekki lítið að gera hjá Gerði Huld Arinbjarnardóttur, framkvæmdastjóra og fyrirlesara vinsælustu kynlífstækjaverslunarinnar á Íslandi, Blush. Gerður hefur byggt upp Blush frá grunni og hefur hún verið að reka fyrirtækið í 14 ár. Maðurinn hennar, Jakob Fannar Hansen, starfar með henni og saman halda þau utan um vaxandi fyrirtækið samhliða því að sjá um fjölskyldulífið. Á síðasta ári flutti fjölskyldan af höfuðborgarsvæðinu og settist að í nýbyggðu heimili í Hveragerði.
Flutningurinn til Hveragerðis
Það hefur alltaf verið á langtímaplaninu hjá Gerði og Jakobi að flytja til Hveragerðis þar sem Hveragerði er heimabærinn hans Jakobs. Gerður segir að upprunalega planið hafi verið að flytja til Hveragerðis í ellinni en að svo hafi komið úthlutun á lóðum sem voru í raun staðsettar á þeirra draumastað, þar sem útsýni er við Varmá sem nær alveg upp í Ölfusborgir.
„Mikil nátturuparadís þarna allt í kring, svo planið breyttist fljótt og við ákváðum að slá til að sækja um lóð,“ segir Gerður.
Þau voru svo heppin að fá úthlutaða lóð og þá hófst tveggja ára ferlið að byggja þeirra draumahús. Að sögn Gerðar gekk ferlið afar vel og að þau sakni þess að standa í brasinu sem fylgir að byggja hús.
„Það er nánast allt tilbúið nema garðurinn, en okkur fannst þetta alveg svakalega skemmtilegt, og söknum þess mjög að standa í þessu brasi. Við tölum oft um það að okkur langi að gera þetta aftur einhvern tímann,“ segir Gerður.
Rólegt líf í „sveitinni“
Að aðlaðast nýju bæjarfélagi hefur reynst töluvert auðvelt fyrir Gerði. Hún segir bæjarbúa mjög vinalega og velkomna. Stór kostur við Hveragerði er ekki síður að stór hluti fjölskyldu hans Jakobs búi þar og hann þekkir marga bæjarbúa.
„Ég er sjálf ofsalega sjálfum mér nóg svo ég þarf ekki að hafa mikið af fólki í kringum mig svo lengi sem ég hef fjölskylduna og nokkra vel valda vini.“
Munurinn á lífinu á Suðurlandi og höfuðborgarsvæðinu er mikill að sögn Gerðar. Hún segir að helsti munurinn sé hversu rólegt lífið er í Hveragerði miðað við á höfuðborgarsvæðinu.
„Dagarnir okkar eru mjög rólegir, við vinnum bæði heima svo við þurfum ekki mikið að fara í bæinn sem er algjör lúxus,“ hún viðurkennir að þó að hún sé aðeins búin að búa í Hveragerði í ár sé hún nú þegar farin að bölva umferðina og lætin í borginni þegar hún þarf að skreppa í bæinn. Hún segir að á höfuðborgarsvæðinu sé mun meiri hraði, allir að stressa sig og að dagarnir fari oft í að snattast um allan bæ og vera fastur í umferð.
„Ég er mjög heimakær og elska að lifa rólegu lífi, geta vaknað rólega og farið í göngutúr með hundinn í fallegri náttúru, eldað góðan mat og átt notalegt heimili. Þannig þetta „sveitalíf“ hentar mér mjög vel,“ segir Gerður.
Allt hefur þó sína kosti og galla.
„Stærsti ókosturinn er að þurfa að keyra á milli Hveragerðis og Reykjavíkur yfir vetrartímann, ég er ekki hrifin af því að keyra almennt, en að þurfa að fara yfir Heiðina er að ég myndi segja það allra leiðinlegasta sem ég geri á veturna.“
Blush í stöðugum blóma
Blush hefur í gegnum árin tekið miklum breytingum og þróun og er fyrirtækið í stanslausum blóma að sögn Gerðar. Gerður segir árið hafa heilt yfir gengið mjög vel. Það sem stendur helst upp úr hjá henni er góður starfsandi og hið frábæra starfsfólk sem starfar hjá Blush. Henni finnst afar mikilvægt að starfsfólk hafi gaman á vinnustaðnum.
Skemmtilegustu verkefnin að hennar mati eru vöruþróun og markaðssetning. „Mér finnst ótrúlega gaman að koma með ný tæki á markað og heyra upplifun viðskiptavina. Ég er líka mjög markaðsþenkjandi og elska að vinna í skapandi herferðum.“
Gerður segir sig og starfsfólk Blush alltaf vera að vinna jafnt og þétt að því að auka eigið vöruúrval. Í dag framleiða þau meðal annars vörur undir merkinu Reset, sem eru langvinsælustu tækin í dag. Blush er einnig sérstaklega þekkt fyrir jóladagatalið sitt sem fer í sölu árlega svo það er aldrei lítið að gera í Blush yfir hátíðirnar.
Það er margt fólk sem velur að gefa unaðsvörur eða undirföt í jólagjöf og segir Gerður desembermánuð vera yfirleitt alltaf annasamasti mánuðurinn hjá Blush. Gerður finnur þó ekki eins fyrir jólaörtröðinni eins og hún gerði áður fyrr og eftir tæp 15 ár í rekstrinum er skipulagið yfir hátíðirnar orðið afar gott.
„Maður er endalaust að læra og innleiða nýja verkferla sem gerir þetta betra og betra hvert ár. En ég man alveg eftir desembermánuði þar sem maður hafði nánast geta sofið í vinnunni því það tók því ekki að fara heim eftir langa daga,“ segir Gerður.
Hvaða vörum mælir þú með í jólapakkann í ár?
„Valor frá Reset er nýr parahringur sem var að koma í sölu og virðist ætla að verða vinsælasta jólagjöfin í ár. En svo er Womanizer-sogtækið alltaf frábær gjöf, falleg hönnun, vandað tæki sem heldur áfram að gefa og geta.“
Elskar að elda yfir jólin
Jólin eru fjölskyldutími hjá Gerði. Hún og fjölskyldan eyða hverjum jólum hjá tengdaforeldrum hennar og finnst Gerði það vera orðinn ómissandi þáttur af jólunum hennar ásamt fjölskyldujólaboðinu sem haldið er á jóladag.
„Þar sem allir mæta snemma og fara seint, borða góðan mat, spila, horfa á sjónvarp og eiga notalega samverustund,“ segir Gerður.
Skemmtilegast við jólin er að elda að mati Gerðar.
„Ég elska að elda fyrir fólk. Það nærir mig að halda risa matarboð og elda fyrir fólk, sumum finnst þetta stressandi eða mikil fyrirhöfn, en ég finn bara hvað þetta gefur mér mikið og set það ekki fyrir mig að fá 20 manns í þriggja rétta,“ segir hún en hún er alltaf með á jólaborðinu hinn hefðbundna hamborgarhrygg og meðlæti. Hún segir að mesta nostalgían sé samt sem áður að fá malt og appelsín.
Aðspurð að því hvað hennar eftirminnilegasta jólaminning sé rifjar Gerður upp jól fyrir nokkrum árum þar sem bæði hún og Jakob höfðu verið á kafi í vinnu öll jólin og enginn tími gefinn til þess að komast í jólaskap. Það var þegar þau voru að keyra úr Norðlingaholtinu í Hveragerði þegar það byrjaði að falla jólasnjór og jólaandinn gjörbreyttist á einni sekúndu.
„Þá byrjaði þessi sturlað fallegi jólasnjór að falla og ég fann þarna bara hvernig jólaandinn kom yfir okkur bæði.“
Nýtt ár og ný verkefni
Það er alltaf nóg að gera og hellingur af hugmyndum og verkefnum sem Gerður er að vinna í fyrir Blush. Til að mynda eru fleiri vörur frá Reset að mæta og svo er á áætlun að koma með smá nýjung á jóladagatalamarkaðinn fyrir næsta ár, en það er enn þá á teikniborðinu.
„Svo erum við að vinna í skemmtilegu samstarfsverkefni með ofsalega flottu fyrirtæki sem mun vonandi fara í gang í febrúar.”
Í lokin, hvenær á að opna verslun á Suðurlandi?
“Það er mjög góð spurning, það er allavega ekki á plani eins og er. Okkur langar að opna fleiri verslanir og erum með augun opin fyrir húsnæðum á vissum svæðum. Svo hver veit kannski opnar Blush einhvern daginn á Suðurlandi.”
SEG

