,,Um þess kjör og aldarfar aðrir hægt sér láta“ ….segir í Íslands minni Matthíasar Jochumssonar – og vísar til þeirra sem í undanlátssemi og þjónkun við ríkjandi valdhafa gera sér flest að góðu sem fyrir þá er borið. Þessi lífsafstaða hentar vissulega valdsmönnum betur en atferli þeirra sem reisa rönd við óheilindum og undirferli, og kallaðir eru fyrir bragðið ,,skapvondari“ en allur almenningur.
Án þess að hér verði sett upp kennaragleraugu og sett út á stigbreytingu orðsins vondur, er full ástæða til þess að strika undir með rauðu þegar áhrifamenn í ábyrgðarstöðum beita sér persónulega og ómálefnalega gagnvart samborgurum með þeim hætti sem rakið var í nýlegri fjasbókarfærslu, þar sem til umræðu var afar umdeild ákvörðun um flutning heilsugæslunnar í Laugarási – ákvörðun sem kalla má einhliða og tekin var af HSU og sveitarstjórn Ytri-Hrepps. Ákvörðunin varðaði alla uppsveitahreppana í Árnessýslu, en var tekin án samráðs við þá – og raunar þvert á vilja þeirra og þrátt fyrir yfirlýsta andstöðu við áformin.
Álit nágrannasveitarfélaga
Til sannindamerkis um þá andstöðu og stórlaskað traust eru bókanir sveitarstjórnar Bláskógabyggðar (336. fundur 31. maí 2023 og 363. fundur 3. júlí 2024), og splunkunýjar áskoranir frá tveimur sveitarstjórnum (nóvember 2025) um að málsmeðferðin verði rannsökuð:
,,Sveitarstjórn telur að eina leiðin til að byggja upp traust milli aðila og traust íbúa á Heilbrigðisstofnun Suðurlands sé að utanaðkomandi aðili verði fenginn til að gera úttekt á ferlinu og því hvort faglega hafi verið staðið að málum. Sveitarstjórn beinir því til HSU og viðkomandi ráðuneyta að ráðist verði í slíka úttekt.“ Svo segir orðrétt í einni af þessum bókunum sveitarstjórnar Bláskógabyggðar og undir það tekur sveitarstjórn Grímsnes- og Grafningshrepps vafningalaust í sinni bókun. Í téðum bókunum er tekið fram að um sé að ræða samhljóða niðurstöðu sveitarstjórnanna, mótatkvæðalaust.
Félagsbræður?
Þannig hafa sveitarstjórnir nefndra hreppsfélaga skipað sér þétt að baki fjölmenns hóps ,,skapvondustu“ þegna í uppsveitum Árnessýslu, að minnsta kosti þeirra sem sveitfesti eiga vestan Hvítar, auk fjölmargra úr öðrum sóknum sem standa munu keikir undir þessu sæmdarheiti. Allt er það fólk sem ég hef rætt við um þessi mál bæði hyggið og vinsælt – og vissulega gildir það líka um alla þá sem ég þekki til í Ytri-Hreppi. Það góða hreppsfélag hefur um meira en hundrað ára skeið borið af um marga þá hluti, sem kenndir verða til félags- og félagahyggju og sjálfur er ég alinn upp við djúpa virðingu fyrir þeirri samfélagssýn sem þar hefur löngum ríkt. Þeim mun þyngra og óásættanlegra er höggið, sem hljótast mun af því sem fyrrum sveitarstjórnarmaður hér um slóðir orðaði svo í mín eyru: ,,Þessi meingjörð HSU og sveitarstjórnar Hrunamannahrepps er sóðalegasta atlaga sem til þessa gerð hefur verið að samstarfi uppsveitahreppanna – og verður ekki
fyrirgefin.“
Sundurlyndisfjandinn – og skopleg vísa
Matthías Jochumsson lýkur kvæði því, er vitnað var í hér að ofan, með þeirri áskorun að sundurlyndisfjandinn verði sendur út á sextugt djúp. Undir það er vert að taka. En það verður ekki gert með því að þola órétt eða ,,láta sér hægt“ um málefni líðandi stundar og brýn hagsmunamál af því tagi sem hér hafa verið rakin. Forsenda þess að hið göfuga markmið náist – að losna við fjanda þennan – er að valdníðsla og undirferli í samstarfi sveitanna víki fyrir lýðræðislegri ákvarðanatöku sem byggja myndi á jafnstöðu sveitanna – og jafnframt að hlustað sé á raddir íbúanna.
p.s. Þótt ekki tengist það beinlínis meginefni pistilsins, get ekki stillt mig um að setja hérna neðanmáls vísu Káins- þó ekki væri til annars en að hafa fyrir ,,rétta“ stigbreytingu.
Góður, betri, bestur
burtu voru reknir.
Illur, verri, verstur
voru aftur teknir.
Bjarni Þorkelsson

