Á miðvikudaginn síðastliðinn tóku eigendur og forsvarsmenn Garðyrkjustöðvarinnar Gufuhlíðar við vottunarstaðfestingu á verkefninu „Í góðu lagi“ sem er nýlegt vottunarkerfi sem sýnir að vinnustaðir fari eftir leikreglum vinnumarkaðarins.
Gufuhlíð í Reykholti er rekin af hjónunum Helga Jakobssyni og Hildi Ósk Sigurðardóttur. Ræktunin í Gufuhlíð er vistvæn og til að mynda eru gúrkurnar ræktaðar í steinull og lífrænum vörnum beitt á plönturnar. Árleg framleiðsla nemur um 1.000 tonnum.
Í júlí sl. undirrituðu Sölufélag garðyrkjumanna, Báran stéttarfélag og Framsýn samstarfssamning um vottunarmerkið Í góðu lagi. Merkið sýnir að fyrirtæki fari eftir kjarasamningum og almennum leikreglum vinnumarkaðarins og byggir á trausti, gagnsæi og sanngirni.

Vottunarferlið felur í sér heimsókn á vinnustað og yfirferð á gögnum sem varpa ljósi á starfsaðstæður, ráðningarsamninga, launagreiðslur og réttindi starfsfólks. Verkefnið miðar að því að gera sýnilegt á milli aðila hvaða vinnustaðir fylgja settum leikreglum og styðja þannig við ábyrga atvinnurekendur.
Gufuhlíð er fjórði vinnustaðurinn sem fær vottun samkvæmt kerfinu, á eftir Ártanga í Grímsnesi, Friðheimum í Reykholti og Hveravöllum í Reykjahverfi. Samkomulagið var undirritað af Halldóru S. Sveinsdóttur, formanni Bárunnar, Hildi Ósk Sigurðardóttur fyrir hönd Gufuhlíðar. Kristín Linda Sveinsdóttir markaðsstjóri var viðstödd móttöku vottunarinnar fyrir hönd Sölufélags garðyrkjubænda.


