2.9 C
Selfoss

Hátíðarandi á fyrsta sunnudegi í aðventu

Vinsælast

Það ríkti mikill hátíðarandi á fyrsta sunnudegi í aðventu þegar Þorlákskirkja fylltist af fólki sem naut fallegrar aðventuhátíðar. Þar fluttu kór Þorláks- og Hjallasóknar, Söngfélag Þorlákshafnar, Barnakór Grunnskóla Þorlákshafnar og Lúðrasveit Tónlistarskóla Árnesinga notalega tónlist. Fermingarbörn gengu inn með ljósið og fyrsta kerti aðventukransins var tendrað. Halldór Sigurðsson, fyrrverandi skólastjóri, flutti hugvekju um jólahefðir og skemmtilegar bernskuminningar.

Síðar um daginn var haldin fjölskylduskemmtun í Versölum. Upphaflega átti viðburðurinn að fara fram í Skrúðgarðinum, en vegna veðurs var skemmtunin færð inn. Ljósin á bæjarjólatrénu voru kveikt í Skrúðgarðinum. Lúðrasveit Þorlákshafnar og barnakór grunnskólans sungu ljúfa jólalög. Að því loknu skemmtu Skjóða og Langleggur með hressilegri jólasögu úr Grýluhellinum, og í lokin komu jólasveinarnir Hurðaskellir og Gáttaþefur við mikinn fögnuð yngstu barnanna. Kiwanismenn buðu öllum heitt kakó og piparkökur og fóru allir heim saddir og sælir.

Þessi hátíðlega og gleðilega byrjun á aðventunni sýnir að jólastemningin hefur sannarlega gert vart við sig í Ölfusi.

Myndir: olfus.is

Nýjar fréttir