2.6 C
Selfoss

Er líða fer að jólum – Jólatónleikar Söngsveitar Hveragerðis

Vinsælast

Er líða fer að jólum fer fólk að huga að hefðunum. Margir hverjir ólust upp við það að fjölskyldan kom saman við að skera laufabrauð, smákökubakstur og fjölskyldufeður taka krakkana með í yfirferð á ljósaseríum sem endar oft í búðarferð við að kaupa nýjar seríur.

Það að sjá desember drungann víkja fyrir ljósum í gluggum og upp ljómast borgir og bæir, er dásamleg upplifun. Allstaðar er fólk á þönum og heyra má tónlistina óma undur blítt úr hverri verslun.

Allt er þetta hluti af undirbúningi jólanna og hafa margar hefðir lifað kynslóð fram af kynslóð sem okkur finnst ómissandi nú er líða fer að jólum. Margir líta svo á, að það verði að fara á jólatónleika fyrir jólin og fá yfir sig jólaandann sem svífur yfir á slíkum tónleikum.

Okkur í Söngsveit Hveragerðis finnst einmitt ómissandi að halda okkar árlegu jólatónleika á aðventunni og halda í hefðina að bjóða gestum okkar upp á heitt súkkulaði og smákökur að tónleikum loknum.

Yfirskrift tónleikanna okkar að þessu sinni er einmitt “Er líða fer að jólum”.
Þetta dásamlega jólalag eftir Gunnar Þórðarson við texta Ómars Ragnarssonar teiknar upp svo fallega mynd af því hvernig drunginn í desember víkur fyrir ljósunum og gleðinni sem í vændum er.

Dagskrá tónleikanna er fjölbreytt, klassísk jólalög í bland við eitthvað nýtt. Einnig fáum við til liðs við okkur nemendur frá Tónlistarskóla Árnesinga, trompetleikarann Jóhann I. Stefánsson og Ester Ólafsdóttir meðleikur á píanó.
Forsala miða fer fram laugardaginn 6.desember í Sunnumörk í Hveragerði (hjá Bónus) en þar verður kórinn með kökubasar sem byrjar kl.11:00. Einnig er hægt að nálgast miða hjá kórfélögum. Miði í forsölu kostar 4.000 kr. en 4.500 kr. í hurðinni á tónleikunum. Við erum ekki með posa en hægt er að leggja inn á reikning kórsins.
Okkur langar að sjá ykkur sem flest á jólatónleikunum okkar sem verða haldnir í Hveragerðiskirkju sunnudagskvöldið 7.desember kl. 20:00.

Nýjar fréttir