2.9 C
Selfoss

Hugrakkt og hæfileikaríkt fólk í Skjálftanum 2025

Vinsælast

Skjálfinn er árleg hæfileikakeppni sunnlenskra ungmenna þar sem krakkar í grunnskóla á elsta stigi fá kost á að láta ljós sitt skína og fara með verk eftir sig sjálf. Keppnin fór að þessu sinni fram í íþróttahúsinu í Þorlákshöfn síðustu helgi. Verkin voru hver öðru áhrifaríkari og sendu þau öll öflugan boðskap út í samfélagið.

Í ár bar Vallaskóli sigur af býtum annað árið í röð en þau sigruðu líka Skjálftann 2024. Hópur nemendanna sem tók þátt fyrir hönd Vallaskóla fór með verkið Litríkir Skuggar og stóð hópurinn sig stórfenglega.
„Verkið speglar bakslagið sem dynur á hinsegin samfélaginu og eflir þá vonarbaráttu um viðsnúninginn að ljósinu sem beinir okkur í rétta átt.“

Myndir: Dagný Dögg Steinþórsdóttir.

Í öðru sæti var Grunnskólinn í Hveragerði með verkið Þori, get og vil og í þriðja sæti var Reykholtsskóli með verkið Steríótýpur.

Dómnefndina skipaði Dagný Sif Sigurbjörnsdóttir söngkona, Mikael Emil Kaaber leikari, Ágústa Eva Erlendsdóttir söng-og leikkona og Tómas Jónsson tónlistarmaður. Dansakademían á Selfossi sá um opnunaratriði með atriðið Housewives sem tók þátt í heimsmeistaramóti Dance World Cup síðastliðið sumar á Spáni. Söngkonan Diljá tók svo Skjálftalag ársins, Power.

Það vekur sérstaka athygli að sami leiðbeinandi, Íris Dröfn Kristjánsdóttir, hefur staðið að baki þessum glæsilegu sigrum Vallaskóla bæði árin. Leiddi Íris enn fremur Grunnskólann í Hveragerði til sigurs í Skjálftanum árið 2023 þegar hún var kennari þar og leiðbeinandi hópsins.

Íris Dröfn hefur haft brennandi áhuga fyrir að setja þessi verkefni upp og allt sem snýr að leiklist og á mjög gott með að vinna með ungu fólki, og ég veit að vinnan sem hún lagði í verkefnin hefur verið ómæld.

Nýjar fréttir