Í tilefni af 70 ára afmæli Tónlistarskóla Árnesinga stóð skólinn fyrir afmælishátíðartónleikum þann 15. nóvember í íþróttahúsinu á Laugarvatni.
Um 250 nemendur og kennarar auk leikskólabarna frá Flúðum og Reykholti stigu á svið og um 500 áheyrendur glöddu okkur með nærveru sinni.
Í efnisvali var áhersla á tónskáld úr Árnessýslu auk tónbókmennta hljóðfæranna, svo lagaval var mjög fjölbreytt. Dagskráin hófst með trommuslætti, leikskólabörn og söngfuglar skólans sungu skemmtilegar dýravísur og svo tók hver deild við af annarri og flutti sín dásamlegu verk. Kynnir tónleikanna var Eyjólfur Eyjólfsson. Þessi stóra dagskrá rann mjög vel og gaman að fylgjast með öryggi í flutningi og framkomu flytjenda.

Að undirbúa svo viðamikla dagskrá með þeim fjölda nemenda sem fram kom, er ekki mögulegt nema með samhentum hópi kennara sem vinnur af fagmennsku og alúð.
Hjartans þakkir kæru nemendur og kennarar fyrir allan undirbúninginn og frábæra frammistöðu á tónleikunum og takk kæru leikskólabörn fyrir að taka þátt í þessu skemmtilega ævintýri með okkur!
Helga Sighvatsdóttir
skólastjóri

