2.6 C
Selfoss

Foccacia brauð með áleggi

Vinsælast

Matgæðingur vikunnar er Bryndís Jóna Gunnarsdóttir.

Ég vil byrja á að þakka fyrir áskorunina. Ég ætla að sýna ykkur hvernig á að baka Foccacia brauð. Þótt það krefjist smá þolinmæði að baka það, slær það alltaf í gegn í öllum veislum.

Innihald:

  • 420 ml volgt vatn
  • 1 tsk þurrger
  • 1 msk hunang
  • 1 msk ólífuolía
  • 2 tsk salt
  • 500 gr hveiti

Hrærið saman geri, vatni, hunangi, ólífuolíu og salti í hrærivél. Bætið við hveiti og hrærið öllu vel saman. Látið standa í 10 mínútur. Fletjið út degið og brjótið það svo saman með blautum höndum. Endurtakið þetta skref. Látið sléttu hliðina á deginu snúa upp og setjið þá ólífuolíu. Nú þarf þolinmæði því degið þarf að standa í kæli yfir nótt.

Þegar það hefur staðið yfir nótt, má setja degið í eldfast mót með vel af olíu. Brjótið degið saman nokkrum sinnum og snúið því svo við í mótinu. Penslið degið með enn meiri olíu og potið í í það nokkrum sinnum. Gott er að strá salti yfir degið.

Bakið í ofni á 220° í 18-20 mínútur.

Hægt er að setja hvaða álegg sem er á brauðið en mér finnst best að bera fram með pestó, parmaskinku og klettasalati.


Ég skora næst á hana mömmu mína, Margréti Karlsdóttur, í matgæðing vikunnar.

Nýjar fréttir