Félagarnir Björgvin Óli Ingvason og Sigurjón Bergsson hafa stofnað nýja fyrirtækið Neyðarþjálfun ehf.
Báðir hafa þeir starfað sem sjúkraflutningamenn hjá Heilbrigðisstofnun Suðurlands í nokkur ár. Samhliða þeirri vinnu hafa þeir í langan tíma komið að þjálfun og kennslu tengt starfi viðbragðsaðila og bráðaþjónustu utan spítala, en einnig sinnt skyndihjálparkennslu fyrir almenning. Björgvin hefur sérhæft sig í kennslu í forgangsakstri og straumvantsbjörgun, auk þess kenna þeir báðir við Sjúkraflutningaskólann.
Neyðarþjálfun ehf.
Neyðarþjálfun ehf. býður upp á fjölbreytt námskeið, fyrst og fremst á sviði skyndihjálpar en einnig öryggisnámskeið fyrir fólk sem starfar við krefjandi aðstæður, eins og m.a. á hálendinu. Auk þess býður Neyðarþjálfun upp á sérhæfð námskeið fyrir viðbragðsaðila. Fyrirtækið leggur áherslu á að skyndihjálparnámskeiðin séu sniðin að þörfum mismunandi vinnustaða og tekur námsefnið mið af starfsaðstæðum hvers hóps fyrir sig.
„Okkur finnst mikilvægt að skyndihjálparnámskeið geti verið skemmtileg og við bjóðum upp á líflega framkomu og gott námsefni,“ segja þeir Sigurjón og Björgvin.
Hugmynd að Neyðarþjálfun
Áhersla á þekkingu í skyndihjálp hefur aukist verulega síðustu árin og fólk er almennt að verða meðvitaðara um mikilvægi skyndihjálpar. Sífellt fleiri fyrirtæki líta á skyndihjálparþjálfun sem nauðsynlega hluta til að tryggja öryggi á vinnustað.
„Þá höfum við frá fyrstu hendi í gegnum tíðina séð, hvað fyrstu viðbrögð geta skipt miklu máli þegar slys eða veikindi ber að. Þess vegna viljum við dreifa boðskap sem víðast.“
Hugmynd fyrirtækisins kviknaði eftir nokkur ár af sameiginlegri kennslu í skyndihjálp. Með vaxandi eftirspurn eftir námskeiðum sáu þeir Björgvin og Sigurjón fram á að til þess að anna eftirspurn þyrfti að fjölga í hópinn til að hafa með þeim í liði.
„Við erum í dag með frábæra leiðbeinendur á skrá hjá okkur sem öll hafa víðtæka reynslu af vettvangi viðbragðsaðila og getum þannig haldið fleiri námskeið í sömu gæðum og hingað til,“ segja þeir.
Námskeiðin
Mest eftirspurn er eftir skyndihjálparnámskeiðum, en helstu markóparnir eru fyrirtæki af öllum stærðum og gerðum. Þar má nefna skólaþjónustu, iðnaðarfyrirtæki, virkjanir og veitustofnanir svo dæmi séu nefnd.
Öll skyndihjálparnámskeið Neyðarþjálfunar eru byggð á blöndu af fyrirlestrum og verklegri kennslu. Í verklegri kennslu er notast við kennslubúnað sem gefur nemendum endurgjöf um það hversu vel viðkomandi stendur sig í endurlífgun. Auk þess gefur búnaðurinn tækifæri á að standa fyrir keppni í endurlífgun, sem hefur oft kveikt vel í keppnisskapi hjá þátttakendum. Björgvin og Sigurjón vilja tryggja að námskeiðin séu lífleg og skemmtileg.
„Þetta hefur vakið mikla ánægju meðal þeirra sem setið hafa námskeið hjá okkur,“ segja þeir Björgvin og Sigurjón.
Munur á námskeiðum fyrir almenning og viðbragðsaðila
Framboð námskeiða er mismunandi fyrir viðbragðsaðila og almenning. Fyrir almenning er mest áhersla á skyndihjálp og öryggisnámskeið, til að mynda jeppanámskeið og snjóflóðanámskeið fyrir vélsleða- og skíðafólk. Fyrir viðbragðsaðila er mest áhersla á forgangsakstur, straumvatnsbjörgun og sérhæfða skyndihjálp.
„Við vonumst til þess að geta breytt boðskap okkar sem víðast, til þess að auka öryggi almennings, hvort sem er á sviði skyndihjálpar eða annarra þeirra námskeiða sem við höfum upp á að bjóða,“ segja þeir Björgvin og Sigurjón að lokum.
SEG

