Þann 25. nóvember, á alþjóðlegum baráttudegi Sameinuðu þjóðanna gegn kynbundnu ofbeldi, hófst árlegt átak Soroptimista um allan heim og því lýkur 10. desember, á alþjóða mannréttindadegi Sameinuðu þjóðanna. Nú í ár ber átakið yfirskriftina „Þekktu rauðu ljósin“, þar sem áhersla er lögð á að við lærum að þekkja viðvörunarbjöllurnar og bregðast við.
Kynbundið ofbeldi birtist á margan hátt, sem andlegt, líkamlegt, kynferðislegt, fjárhagslegt og/eða stafrænt ofbeldi og þá gjarnan sem neteltihrellir.
Soroptimistaklúbbur Suðurlands mun vekja athygli á þessum dögum með því að lýsa upp nokkrar byggingar á Suðurlandi í appelsínugulum lit og flagga fánum í sama lit.
Klúbbsystur verða með blómasölu á Facebook, með heimsendingu 28. nóvember og 5. desember, auk blómasölu í miðbæ Selfoss laugardaginn 29. nóvember.
GK bakarí er dyggur stuðningsaðili og ætlar að vera með tilboð og mun hagnaðurinn renna til okkar í Sigurhæðum eins og blómin frá Espiflöt.
Soroptimistaklúbbur Suðurlands stendur fyrir göngu laugardaginn 29. nóvember frá Sigurhæðum í miðbæinn. Sigurhæðir eru þolendamiðstöð fyrir konur,gegn kynbundnu ofbeldi. Gangan er öllum opin og lagt verður af stað kl. 13.00 frá Fagurgerði 2. Selfossi.


Þátttakendur eru hvattir til að klæðast eða bera með sér eitthvað appelsínugult.
Við hvetjum alla sem vilja styðja baráttuna gegn kynbundnu ofbeldi til að ganga með okkur og hjálpa til við að vekja athygli á þessu brýna samfélagsmáli.
Fh. Soroptimistaklúbbs Suðurlands
Jarþrúður Jónsdóttir
Sigríður Munda Jónsdóttir

