Þann 1. desember verður Héraðsskjalasafn Árnesinga 40 ára. Frá upphafi hefur skjalasafnið vaxið og dafnað og veitt Árnesingum þjónustu allt árið um kring. Héraðsskjalasafnið er með skrifstofur og skjalageymslu að Austurvegi 2 á Selfossi og fjargeymslu að Háheiði 9 á Selfossi, en sú aðstaða er fyrir löngu orðin of lítil. Það var því fagnaðarefni þegar skjalasafnið fékk afhent fyrr á þessu ári nýja skjalageymslu við Hrunamannaveg 3 á Flúðum sem safnið mun leigja af Hrunamannahreppi. Nýja skjalageymslan er 327 fm. að stærð og leysir geymsluvanda skjalasafnsins til framtíðar. Þegar hafa verið settir upp sérhannaðir skjalaskápar í geymslunni sem rúma munu um 1300 hillumetrar af skjölum. Hrunamenn hafa tekið starfsmönnum skjalasafnsins afar vel og verður vonandi um langt og farsælt samstarf að ræða. Í tilefni af afmælinu verður opið hús í nýju skjalageymslunni við Hrunamannaveg þann 1. desember 2025 frá kl. 16:00-19:00 og gefst þá gestum og gangandi kostur á að skoða nýja húsnæðið.


