2.9 C
Selfoss

Jólamarkaður og Ljósadagur marka upphaf jólaföstu í Laugardalnum ár hvert

Vinsælast

Fyrsti jólamarkaður Kvenfélags Laugdæla á Laugarvatni var haldinn laugardaginn 29. nóvember 1997 og hefur síðan verið haldinn laugardag fyrir fyrsta sunnudag í aðventu í samstarfi við Lionsklúbb Laugardals. Dagurinn hefur markað ríka hefð innan samfélagsins og flestir taka hann frá til þess að njóta og taka þessi fyrstu skref inn í jólaföstu. Í ár hittir hann á sama dag og þann fyrsta, það er 29. nóvember og verður vöfflukaffi að venju í Héraðsskólanum að Laugarvatni frá kl. 13.

Kvenfélag Laugdæla var stofnað 26. maí 1960 og á því 65 ára afmæli í ár. Meðalaldur félagskvenna er 46 ár, þær yngstu eru 27 ára og þær elstu 68 ára, fyrir utan þær félagskonur sem eru komnar á heiðurslista og hafa fengið verðskuldað frí frá félagsstörfunum. Það er því vel við hæfi af þessu tilefni að segja aðeins frá því hvernig jólamarkaðurinn kom til. Undirrituð heimsótti systurnar Guðnýju og Gróu Grímsdætur á Ketilvöllum en þær hafa verið virkar kvenfélagskonur og afkastamiklar þrátt fyrir annríki í bústörfum.

„Hugmyndin kom upphaflega frá kvenfélagskonu sem ólst upp við jólabása í sinni heimasveit. Við vorum að keyra um allar sveitir og selja jólakort fyrir SSK og dagatöl fyrir Þroskahjálp. Það var brunagaddur á þessum tíma,“ segir Guðný og heldur áfram:
„Þessi hugmynd kom upp og við vorum þrjár sem tókum þetta að okkur, enda höfðum við verið dregnar í vinnunúmer eins og tíðkast í kvenfélagsstarfi. Ein bakaði vöfflur, ein hitaði kakó og seldi inn á meðan sú þriðja seldi jólakort.“

En stemningin var góð, börn kvenfélagskvenna seldu föndur, handverkskonur voru á staðnum og seldu muni og það varð brjálað að gera í kakó- og vöfflusölu í frostinu. Markaðurinn varð því mun stærri en búist var við og umfangið slíkt að enginn bjóst við að þurfa að bretta upp ermar eins og úr varð. Aðrar kvenfélagskonur voru því komnar í verkefni og hjálpuðust þær að við að bera fram kakó og vöfflur við góðan orðstýr. Sú hefð hafði skapast áður en jólamarkaðurinn kom til, að Lionsmenn sæju um að setja jólaljós á jólatré í Bjarnalundi og kveikja á þeim við hátíðlega athöfn. Seinna bættist við sú hefð að ljúka deginum með sameiginlegri göngu niður að Laugarvatni þar sem fólk af öllum aldri fleytir kertum til minningar um ástvini eða jafnvel bara til þess að horfa á eftir ljósunum líða um vatnið í notalegri stemningu.

Áður fyrr var jólamarkaðurinn haldinn í barnaskólanum en með fjölgun barna þurfti kvenfélagið að víkja og leita á náðir annarra. Í dag er markaðurinn og raunar mest öll starfsemi kvenfélagsins í Héraðsskólanum að Laugarvatni. Húsið á sér mikla sögu og ber slíka starfsemi afar vel. Við eigum ekki til nægilega mörg orð til að lýsa því þakklæti sem við berum til rekstraraðila hússins. Fjölskyldan sem rekur ferðaþjónustufyrirtækið Efstadal hefur staðið þétt við bakið á íbúum á Laugarvatni og í Laugardalnum og það er fyrir þeirra tilstilli að við getum haldið viðburð af þessu tagi í dalnum okkar. Þau hafa ekki bara veitt okkur húsaskjól heldur einnig boðið fram veitingar til styrktar félaginu ár eftir ár. Í ár verða tónleikar í Héraðsskólanum föstudaginn 28. nóvember til minningar um Villa Vill, en hann var við nám í Héraðsskólanum að Laugarvatni og söng þar í fyrsta skipti opinberlega. Þetta er frábær viðbót við notalega helgi og kannski upphaf nýrrar hefðar. Það verður a.m.k nóg um að vera á Laugarvatni fyrstu helgina í aðventu og bjóðum við öll velkomin.

Helga Kristín Sæbjörnsdóttir,
formaður Kvenfélags Laugdæla

Nýjar fréttir