2.9 C
Selfoss

Skálholtskirkja glitrar í jólatónum ML-kórsins

Vinsælast

Jólastemmningin var allsráðandi í Skálholtskirkju síðustu helgi þegar kór Menntaskólans að Laugarvatni hélt sína árlegu jólatónleika. Jólatónleikar kórs ML hafa verið fastur liður í lok nóvembermánaðar í þó nokkur ár og hefur aldrei mistekist að koma nemendum og gestum tónleikanna í jólaskap fyrir jólafrí.

Dagskrá kórsins var fjölbreytt og innihélt ýmis hátíðarlög sem flest okkar ættu að kannast við. Ýmsir krakkar innan kórsins tóku af skarið og sungu einsöng með prýði og skipaði hluti nemenda úr kórnum litla hljómsveit sem lék undir í nokkrum lögum.

Tónleikarnir marka einnig tímamót í sögu kórsins, því þetta voru fyrstu jólatónleikar kórsins undir stjórn Stefáns Þorleifssonar, sem tók nýlega við kórstjórn ML kórsins af Eyrúnu Jónsdóttur, sem lét af störfum síðasta vor eftir 15 ára starf.

Stefán hefur fljótt náð að setja sinn svip á kórstarfið og hefur allur undirbúningur tónleikanna verið nýttur í haust á kóræfingum. Kórinn samanstendur af meirihluta nemenda skólans en nemendur skólans eru samtals 156, þar af eru 119 í kórnum og því tæplega 80% nemenda í kórnum. Margrét Elín Ólafsdóttir er verkefnastjóri kórsins og hefur stýrt bæði skipulagi og fjáröflun tónleikanna ásamt kórstjórn sem fimm nemendur kórsins sitja í.

Kórinn heldur áfram að taka að sér spennandi verkefni en kórinn stefnir á að fara til Stokkhólms næsta vor í kórferð.

Jólatónleikar helgarinnar sýndu glöggt að kórstarfið er í öruggum höndum og heldur áfram að blómstra. Það má með sanni segja að hátíðartónleikarnir hafi verið fallegur fyrirboði þess sem koma skal.

SEG

Nýjar fréttir