Lilja Magnúsdóttir hefur gefið út sína fjórðu bók undir nafninu Feluleikir. Lilja er búsett á Kirkjubæjarklaustri. Hún er með BA-próf í íslensku og hefur verið að kenna íslensku í Menntaskólanum í Kópavogi. Þar að auki er Lilja með MA-próf í hagnýtri ritstjórn og útgáfu frá Háskóla Íslands.
Lilja hefur gefið út bækurnar Svikarinn (2018), Gaddavír og gotterí (2022), Friðarsafnið (2023) og svo nýjustu bókina sína Feluleikir, sem er nýlega komin út. Síðustu þrjár bækur hefur Lilja gefið út sjálf.
Á miðvikudaginn 26. nóvember næstkomandi verður viðburður á bókasafni Kirkjubæjarklausturs kl. hálf átta þar sem Lilja mun lesa úr nýju bókinni. Allir eru velkomnir og hvattir til að mæta.
Lilja Magnúsdóttir kíkti í heimsókn til okkar hjá Dagskránni og sagði okkur frá bókinni.
Um söguna Feluleikir
Skáldsagan Feluleikir á sér stað árið 2006 og segir frá konunni Örnu sem er rúmlega þrítug og er sagnfræðingur. Hún hefur gaman af sögum og skrifum. Arna er í sambandi með manni sem á kvikmyndafyrirtæki og hann fær Örnu til að skrifa handrit að kvikmynd um Skaftáreldana. Arna er í húsi í Fljótshverfi að skrifa þegar kærastinn kemur í heimsókn.
Þegar kærasti hennar fer austur að Kárahnjúkum til að taka upp fer sambandið að taka óvænta stefnu. Með honum á ferð er ung kona úr tökuliðinu sem Arna upplifir afbrýðissemi gagnvart. Skömmu síðar berast þær skelfilegu fregnir að ráðist hafi verið á þessa stúlku sem kærasti Örnu var á ferð með og hann er kominn í gæsluvarðhald.
„Þá vaknar spurningin: Hvað gerir maður þegar svona gerist? Heldur maður áfram með manni sem er kominn í gæsluvarðhald fyrir að ráðast á aðra stúlku?“ segir Lilja. Sagan vindur síðan upp á sig. Fjölskylduleyndarmál koma upp á yfirborðið, aðalpersónan fer að spyrja spurninga sem aldrei hafa verið spurðar og uppgötvar að uppruni hennar sjálfrar er ekki eins og henni hafði verið sagt.
Hvaðan vakna hugmyndinar?
Lilja segir hugmyndina að bókinni koma smátt og smátt til hennar. Hún segir það mikilvægast í ferlinu að setjast bara niður við tölvuna og skrifa. „Ekki bíða eftir að hugmyndirnar komi til þín, þær einhvern veginn koma bara um leið og þú sest við tölvuna,“ segir Lilja.
Það sem heillaði hana hvað mest var að skrifa um manneskjur sem takast á við alls konar áskoranir og hvernig þær bregðast við áskorununum.
„Maður ræður ekki alltaf hvað gerist en maður getur kannski stjórnað því hvernig maður bregst við.“
Aðalpersónan, sem upplifir sig alla tíð sem utangarðs „eins og hrafnsungi í hreiðri lóu“, á erfitt með að finna sinn stað sem er eitthvað sem Lilja telur að margir geti tengt við.
Lilja segir það aðallega mest krefjandi að búa sér til næði þegar hún er að skrifa. „Það er erfitt að skrifa þegar það er margt að gerast í kringum þig,“ Lilja segir mann verða að passa að tapa ekki söguþræðinum. „Maður þarf alveg að muna á blaðsíðu 300 hvað viðkomandi sagði á blaðsíðu 25,“ segir Lilja.
Fyrir hverja er sagan?
Lilja segir söguna vera fyrir alla þá sem hafa gaman að því að lesa sögur sem fjalla um fjölskyldur og lífið sjálft og hvernig það getur verið snúið. „Þeir sem hafa gaman af fjölskyldudrama, hvernig fjölskyldur eru, og hvernig þær eru samsettar og hvernig það er ýmislegt sem við vitum ekki um okkar eigið fólk,“ segir Lilja.
SEG

