Keppendur Frjálsíþróttadeildar Selfoss tóku þátt í Silfurleikum ÍR laugardaginn 22. nóvember. Allir þátttakendur 11 ára og yngri fengu þátttökuverðlaun á mótinu, í flokki 12 ára fengu 10 stigahæstu verðlaun og veitt voru verðlaun fyrir þrjú efstu sætin í flokkum 13-17 ára. Keppendur deildarinnar stóðu sig frábærlega en hæst bar Íslandsmet Önnu Mettu Óskarsdóttir í þrístökki í tveimur aldursflokkum og HSK met í fjórum aldursflokkum. Íslandsmet í 60m grind hjá Ívari Yli hjá Dímon og HSK met Helgu Fjólu Erlendsdóttur frá Garpi í 60 m grind.
Anna Metta Óskarsdóttir stórbætti sig í þrístökki þegar hún stökk 11,93m og bætti Íslandsmetin í þrístökki í tveimur aldursflokkum , bæði í flokki 15 ára og í flokki 16-17 ára. Í 15 ára flokki bætti hún eigið Íslandsmet um 34 cm. Íslandsmetið í 16-17ára flokki var 11,64m í eigu Þórdísar Evu Steinsdóttir frá árinu 2016. Með þessu stökki bætti hún eigin HSK met í flokkum 15 ára, 16-17 ára og 18-19 ára. Hún bætti einnig 20 ára gamalt HSK met Ágústu Tryggvadóttur í flokki 20-22 ára um 22cm. Frábær árangur hjá þessari stórefnilegu íþróttakonu en að sjálfsögðu vann hún til gullverðlauna í þrístökkinu. Stökkið er jafnframt næst lengsta þrístökk ársins innanhúss í kvennaflokki. Lágmarkið á Evrópumeistaramótið U18 í þrístökki kvenna á árinu 2026 er 12.20m þannig að Anna Metta er einungis 28cm frá lágmarki á það stórmót þrátt fyrir að hún sé einungis 15 ára gömul. Anna Metta sigraði einnig í hástökki á Silfurleikunum þegar hún vippaði sér yfir 1.59m og náði í silfurverðlaun bæði í 60m hlaupi á tímanum 8,50 sek og í 200m hlaupi á tímanum 28,40 sek.

Ívar Ylur Birkisson frá Dímon stórbætti Íslandsmet Tristans Freys Jónssonar frá árinu 2014 í 60m grindahlaupi (91,4cm). Ívar Ylur hljóp á tímanum 8,04 sek en eldra Íslandsmetið var 8,25 sek. Stórkostlegur árangur hjá Ívari en árangurinn er jafnframt HSK met í flokki 16-17 ára. Ívar Ylur sigraði að sjálfsögðu í hlaupinu á Silfurleikunum auk þess sem hann sigraði einnig í 60m hlaupi á tímanum 7,29 sek. Helga Fjóla Erlendsdóttir frá Garpi bætti HSK met Bríetar Bragadóttur frá árinu 2018 um 0,10 sek er hún kom í mark í 60m grindahlaupi (76,2cm) á tímanum 9,11 sek og vann til silfurverðlauna. Helga Fjóla sigraði í hástökki með því að vippa sér yfir 1,59m.

Hjálmar Vilhelm Rúnarsson sigraði í kúluvarpi í flokki 16-17 ára er hann varpaði kúlunni 15.44m og Kristján Kári Ólafsson náði bronsverðlaunum í sömu grein með 13.92m löngu kasti og persónulegu meti. Magnús Tryggvi Birgisson bætti sig í þrístökki með 11.75m löngu stökki og vann til silfurverðlauna í flokki 14 ára og í kúluvarpi vann hann einnig til silfurverðlauna með 11.11m löngu kasti og bætingu. Kári Sigurbjörn Tómasson vann til bronsverðlauna í 60m grindahlaupi í flokki 15 ára á tímanum 10.59 sek sem er persónuleg bæting. Hilmir Dreki Guðmundsson kastaði kúlunni 7,96m í flokki 13 ára og vann til silfurverðlauna.
Bryndís Embla Einarsdóttir bætti sinn besta árangur í kúluvarpi er hún varpaði henni 12,76m í flokki 16-17 ára og vann til silfurverðlauna. Adda Sóley Sæland keppti í kúluvarpi í flokki 15 ára og vann til silfurverðlauna með 10.24m langt kast sem er bæting hjá henni.

