2.9 C
Selfoss

Nýhöfn gefur út þrjár nýjar bækur fyrir jólin

Vinsælast

Bókaútgáfan Nýhöfn í Hveragerði gefur út þrjár nýjar bækur fyrir jólin, Blátt áfram, sjálfsævisögu Bjarna Eiríks Sigurðssonar Ekkert, margverðlaunaða danska skáldsögu eftir Janne Teller í þýðingu Ólafs Hauks Símonarsonar og ljóðabókina Hlér eftir Hrafn Andrés Harðarson, skáld í Hveragerði.

Í bók sinni Blátt áframSjálfsævisaga segir Bjarni Eiríkur Sigurðsson frá baráttu sinni við lesblindu. Hún háði honum nokkuð í námi en honum tókst þó með harðfylgi að takast á við þann fjanda og segir frá þeim átökum í þessum endurminningum sínum. Hann náði að ljúka prófi frá Garðyrkjuskólanum Íþróttakennaraskólanum og Kennaraskólanum. Að loknu námi kenndi hann lengi í Hveragerði við góðan orðstír og var um hríð skólastjóri í Þorlákshöfn. Seinna fór hann til Þýskalands til náms í námsráðgjöf og var með fyrstu náms- og starfsráðgjöfum landsins. Þá gerðist hann djákni og lærði til þess göfuga starfs í guðfræðideild Háskóla Íslands.

Bjarni Eiríkur var liðtækur tónlistarmaður, lék á píanó og harmóniku eins og engill. Á dansgólfinu heillaði hann svo dömurnar með fótafimi sinni og þokka.

Það sem stendur þó ef til vill upp úr á æviferli Bjarna Eiríks er hestamennskan. Hann var góður tamningamaður og afbragðs hestaferðamaður. Þá hélt Bjarni námskeið í reiðmennsku víða um land og segir sögur af ævintýrum sem hann lenti í þar.

Í þessu riti fellir Bjarni Eiríkur skemmtilega og fróðlega palladóma um samferðafólk sitt.

Í bókinni Ekkert eftir Janne Teller segir frá unglingnum Pierre Anthon sem yfirgefur skólann daginn sem það rennur upp fyrir honum að ekki taki því að gera neitt af því að ekkert hafi þýðingu þegar allt komi til alls. Hann kemur sér fyrir uppi í plómutré og kastar þaðan ávöxtum í bekkjarfélagana og ögrar þeim með orðum. Bekkjarsystkinin gera allt sem þau geta til að sannfæra hann um að það sé margt sem hafi tilgang í lífinu. Aðferðir þeirra til að sannfæra Pierre Anthon verða sífellt óhugnanlegri og fara að lokum út í öfgar – algjörlega út í öfgar.

Bókin þótti víða varhugaverð fyrst eftir að hún var gefin út árið 2000 en í dag er hún hins vegar alþjóðleg verðlaunabók sem hefur verið þýdd á 36 tungumál og selst í tveimur milljónum eintaka.

Hlér eftir Hrafn Andrés Harðarson er ljóðaflokkur sem fjallar um dauðann og sorgina. Undiralda ljóðaflokksins er harmur og þungbær reynsla en ljóðin eru einlæg úrvinnsla föður sem missti son sinn barnungan. Ljóðin bera vitni um mikla ást, missi og lífskraft minninga.

Nýjar fréttir