Margrét Harpa Guðsteinsdóttir er matgæðingur vikunnar.
Takk fyrir áskorunina kæra Benna Laufey. Fyrir mér er matargerð slump og dass, finnst gott að styðjast við uppskriftir en fer sjaldnast nákvæmlega eftir þeim svo þetta er virkileg áskorun. Mitt fyrsta val að mat er íslensk nautasteik, helst úr eigin framleiðslu, en uppskriftin að góðri steik er gott hráefni, pipar eða steikarkrydd og kjöthitamælir – afar einfalt.
En íslenskur fiskur er einnig gott hráefni og ætla ég því að deila með ykkur uppskrift að fiskrétti sem er vinsæll á mínu heimili. Upprunalega uppskriftin innihélt hrísgrjón en ég nota frekar bankabygg, sem er næringarríkara, bragðmeira og auðvitað framleitt á Íslandi – en fyrir mér skiptir miklu máli að nota íslenskt hráefni eins og hægt er. Íslenskt – Já, takk!
Suðrænn fiskréttur
(Uppskrift fyrir fjóra)
2 bollar soðið íslenskt bankabygg
600-800 g. þorskur eða ýsa í bitum
100 g. heilhveiti/hveiti
Salt og pipar
Setja soðið bankabygg í eldfast mót. Blanda hveiti, salti og pipar saman. Velta fiskstykkjum upp úr hveitiblöndunni og léttsteikja í matarolíu á pönnu. Raða steiktum fiski ofan á bankabyggið.
Yfir fiskinn fer:
200 gr. skornir Flúðasveppir
½ dós ananasbitar
Má einnig setja gulrætur, papriku eða annað grænmeti – best ef það er íslenskt!
Sósa:
8 msk. majónes eða grísk jógúrt
3 tsk. karrí
2 dl ananassafi (úr dósinni)
Krydda majónesið með karríi og blanda ananassafa út í, hræra vel. Hella sósunni yfir réttinn. Setja slatta af rifnum osti og baka í 175°C heitum ofni í 20-30 mínútur. Borið fram með fersku íslensku grænmeti.
Einnig vil ég deila með ykkur uppskrift að kökum sem amma mín á Stokkseyri bauð alltaf upp á í jólaboðum og hef ég tekið upp þann sið frá henni.
Blúndubuxur
½ b. síróp
2 b. haframjöl
2 b. hveiti
2 b. sykur
½ b. rjómabland eða mjólk
1 ½ tsk. lyftiduft
400 gr. bráðið smjör
1 tsk. vanilludropar
Öllu blandað saman við bráðið smjörið, hrært vel með sleif. Athugið að fyrst virðist deigið vera of þunnt en það þykknar eftir smá stund. Sett á plötu með bökunarpappír með teskeið. Passlegt að setja 9 kökur í einu á plötuna því þær renna mjög út við bakstur. Bakað við 175°C í u.þ.b. 10 mínútur eða þar til kökurnar hafa tekið smá lit (verða ljósbrúnar, flatar með götum líkt og blúndur). Látið kólna, þá harðna þær líkt og kex. Áður en þær eru bornar fram eru þær lagðar saman með þeyttum rjóma, þ.e. kaka er smurð með sæmilega þykku lagi af þeyttum rjóma og önnur lögð ofan á. Best að gera 2-4 tímum áður en þær eru borðaðar.
Verði ykkur að góðu!
Ég skora á bróður minn, Hermund Guðsteinsson, sem næsta matgæðing. Hann er ansi lunkinn í bakstri og hef ég heyrt að hann sé sérlegur pönnukökugerðarmaður Kvenfélagsins á Stokkseyri – sel það þó ekki dýrara en ég keypti það.

