Elísabet Ósk Guðlaugsdóttir hefur verið ráðin útibússtjóri Sjóvá á Selfossi. Hún segir hlutverkið bæði spennandi og krefjandi og sér fram á að efla þjónustu og tengsl fyrirtækisins við samfélagið á öllu Suðurlandi.
„Ég er fædd og uppalin á Selfossi og á sterka tengingu við svæðið allt auk þess sem ég þekki samfélagið vel. Útibú Sjóvá á Suðurlandi eru nú tvö, á Selfossi og í Vestmannaeyjum, en svæðið nær allt frá Þorlákshöfn og nánast að Höfn í Hornafirði, þar sem nýlega opnaði nýtt útibú. Svæðið er stórt og fjölbreytt og tækifærin óteljandi. Ég sé fyrir mér að efla þjónustuna með því að vera sýnileg, kynnast viðskiptavinum, hlusta á þeirra þarfir og byggja upp traust og persónuleg tengsl. Markmiðið mitt er að Sjóvá verði fyrsta val viðskiptavina á Suðurlandi þegar kemur að tryggingum. Sjóvá hefur verið duglegt við að opna svokölluð pop-up útibú þar sem starfsmenn koma sér fyrir á góðum stað þar sem ekki er útibú starfandi og bjóða fólki að kynnast þjónustunni og fyrirtækinu. Það hefur heppnast vel og er stefnan að halda því áfram á svæðinu.“
Traust, samvinna og nærvera skipta mestu máli
Elísabet segir traust og samvinnu lykilatriði þegar kemur að því að byggja upp sterkt teymi á landsbyggðinni. „Mikilvægt er að teymið hafi góða þekkingu á svæðinu og skilji þarfir íbúa og fyrirtækja.“
Hún telur nærveru fyrirtækja eins og Sjóvá ómetanlega fyrir samfélagið á Suðurlandi. „Viðskiptavinir fá betri aðgang að þjónustu, persónulegri ráðgjöf og aukna öryggistilfinningu. Fyrirtækið tekur virkan þátt í samfélagsmálum, styrkir ýmis verkefni og styður við uppbyggingu á svæðinu. Öflug nærvera tryggir einnig að þekking og reynsla um staðbundnar þarfir skila sér í betri þjónustu til allra.“
Að sögn Elísabetar er Suðurland einstakt vegna sterkrar stöðu landbúnaðar og ört vaxandi ferðaþjónustu.
Framtíð með tækni og mannlegum samskiptum
„Áherslur eru sífellt að breytast í samfélaginu öllu og ekki síst í tryggingaheiminum. Ég hef strax upplifað hversu framsækið og sveigjanlegt fyrirtækið er. Hér er lögð rík áhersla á að fylgjast vel með breytingum í samfélaginu og bregðast hratt við nýjungum. Öflugur og samheldinn hópur starfsfólks vinnur markvisst að því að tryggja viðskiptavinum bestu mögulegu vörur og þjónustu. Starfsandinn er frábær og það skilar sér greinilega í jákvæðri upplifun viðskiptavina,“ segir Elísabet.
Áður starfaði hún hjá Sigtún Þróunarfélagi og segir þá reynslu hafa veitt sér dýrmæta innsýn í mikilvægi öflugs samfélags og góðrar þjónustu. „Nú taka við nýjar áskoranir þar sem ég get sameinað þjónustulund, tengslanet og áhuga á að efla samfélagið okkar. Nú hlakka ég til að takast á við nýjar áskoranir hjá Sjóvá, kynnast fjölda fólks og styðja við áframhaldandi uppbyggingu á Suðurlandi.“
„Stafrænar lausnir gera okkur kleift að veita hraða og skilvirka þjónustu en mannlegi þátturinn verður alltaf ómissandi. Persónuleg samskipti, traust og tengsl eru grunnstoðir í allri þjónustu, sérstaklega á landsbyggðinni þar sem nálægðin við samfélagið skiptir máli. Framtíðin felur í sér aukna nýtingu tækni til að bæta þjónustu, en það er mikilvægt að halda fast í persónuleg samskipti og hlýju sem gerir þjónustuna einstaka,“ segir Elísabet í lokin.

