Bjarnfríður Laufey Guðsteinsdóttir er matgæðingur vikunnar.
Jæja, takk fyrir áskorunina kæra Hrönn!
Ég vil gjarnan deila með ykkur uppskrift að Mango-chutney gúllasi sem slær alltaf í gegn, hjá yngri kynslóðinni og þeirri eldri. Einstaklega fljótlegur og auðveldur réttur.
Mango-chutney gúllas
600 gr gúllas (ég nota oftast folaldagúllas)
2 tsk karrý
2 saxaðir laukar
1 stór gulrót, skorin niður
1 epli, flysjað og rifið
2 tsk timjan
salt og pipar eftir smekk
3 msk mango-chutney
3 dl vatn
1 teningur kjötkraftur
250 ml matreiðslurjómi
Kjötið er brúnað í olíu, í potti og kryddað með karrý. Laukur, gulrót og epli sett út í, svo krydd, vatn, kjötkraftur og mango-chutney. Þetta er látið malla í ca 30 mín og þá er rjóminn settur saman við.
Það er aðeins hægt að leika sér með þennan rétt, hafa hann sem gúllassúpu og bera þá fram með naan brauði eða þykkja hann örlítið með sósujafnara og bera fram með hrísgrjónum og naan brauði.
Verði ykkur að góðu!
Mig langar til að skora á hana systur mína, Margréti Hörpu Guðsteinsdóttur, sem næsta matgæðing. Hún er sko snillingur í að galdra fram dýrindis veislur á núll einni og það virðist ekkert vefjast fyrir henni þegar kemur að eldamennsku og bakstri.

