6.2 C
Selfoss

Farsæld barna og byggðaþróun í brennidepli

Vinsælast

Ársþing Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga (SASS) hófst fimmtudaginn 23. október í félagsheimilinu Kirkjuhvoli á Kirkjubæjarklaustri í Skaftárhreppi. Um 100 fulltrúar frá öllum 15 sveitarfélögum á Suðurlandi sóttu þingið, ásamt alþingismönnum, starfsmönnum samtakanna og öðrum opinberum starfsmönnum. Meginmarkmið þingsins er að móta sameiginlegar tillögur og ályktanir í hagsmunagæslu fyrir landshlutann í heild.

Á þinginu í ár er sjónum sérstaklega beint að farsæld barna og málefnum byggðaþróunar. Meðal annars var starfsemi Farsældarráðs á Suðurlandi kynnt, auk þess sem byggðaþróunarfulltrúar og sveitarstjórnarfulltrúar fóru yfir reynsluna um hlutverk þeirra fulltrúa í þróun byggðarlaga.

Auk hefðbundinna aðalfundarstarfa voru mikilvæg hagsmunamál rædd. Þar má sérstaklega nefna löggæslumál í landshlutanum og þær áskoranir sem þar er að finna.

Samhliða þinginu fóru einnig fram aðalfundir Heilbrigðiseftirlits Suðurlands bs. og Sorpstöðvar Suðurlands bs. Þar var meðal annars fjallað um umfang og kostnað úrgangsmála og aukin tækifæri í samstarfi sveitarfélaga á því sviði.

„Það er alltaf tilhlökkunarefni að koma saman á ársþingi SASS,“ segir Ingunn Jónsdóttir, framkvæmdastjóri SASS. „Þetta er okkar helsti vettvangur til að ræða sameiginlegar áskoranir og tækifæri landshlutans. Markmið mitt og stjórnar er að við förum af þinginu enn samstilltari og með skýra sýn á þau verkefni sem fram undan eru til að efla Suðurland.“

Anton Kári Halldórsson formaður stjórnar SASS setur Ársþing SASS. Mynd: Aðsend.

Við hátíðlega móttöku Skaftárhrepps voru hin árlegu menningarverðlaun SASS afhent. Þinginu lýkur í dag, föstudaginn 24. október.

Nýjar fréttir