Í tilefni bleiks októbers deilir Kolbrún Eva Ríkharðsdóttir reynslu sinni sem aðstandandi eftir að maki hennar greindist með krabbamein.
Kolbrún er 40 ára og er búsett í Þorlákshöfn með maka sínum og tveimur börnum. Saman lagt eiga þau sjö börn en þau eldri eru flutt að heiman. Kolbrún starfar hjá Boðleið í Kópavogi sem lögfræðingur og bókari. Í frítíma sínum spilar Kolbrún mikið golf og eyðir eins miklum tíma með fjölskyldu sinni og ástvinum.
Hélt að heilaæxlið væri grín
Í ágúst 2022 greinist maðurinn hennar Kolbrúnar með heilaæxli. Hann fer strax í aðgerð og kjölfarið fer hann í geislameðferð. Í dag er hann í reglulegu eftirliti í von um að komast á bataveg. Kolbrún segir það hafa verið mikið áfall fyrir bæði hann sjálfan og fjölskyldu.
Kolbrún segir sjálfa sig hafa grunað þetta áður en hann greindist vegna einkenna. „Þannig þegar hann segir mér að hann væri með heilaæxli trúði ég honum ekki og sagði honum að þetta væri ekki fyndið,“ segir Kolbrún. Kolbrún segir það hafa verið skrítið að þessi hugsun hafi orðið að raunveruleika. „Þetta er að sjálfsögðu aldrei eitthvað sem maður sér fyrir sér. En þetta er bara eitthvað sem lífið bauð upp á og maður varð bara að takast á við þetta.“

Ferlið innan heilbrigðiskerfisins var ekki alltaf auðvelt. Kolbrún lýsir fyrstu vikum eftir aðgerð sem tíma þar sem þau voru í algjörri óvissu. Það átti að hafa samband við þau eftir aðgerð vegna geislameðferðar en það var aldrei gert. Kolbrún hringir þá sjálf eftir upplýsingum og þá kom í ljós að það átti eftir að úthluta læknum fyrir hann. Þeim var seinna sagt að þeir vildu að gefa honum mánuð til þess að jafna sig eftir aðgerðina.
Kolbrún útskýrir að hún hefði viljað vitað að það átti að láta hann hvíla sig í mánuð eftir aðgerð og að það hefði verið ekkert mál að láta þau vita frá upphafi. Hún lýsir stressinu og óþægindunum við að sitja og bíða heima eftir símtali varðandi upplýsingar um meðferðina.
Tekið á móti manni með opnum örmum
Eftir aðgerð fengu Kolbrún og maki hennar litla aðstoð frá Krabbameinsfélaginu í Reykjavík. Læknir bendir þeim á að leita til Krabbameinsfélags Árnessýslu. „Þar var tekið á móti okkur með opnum örmum, það var þvílíkur munur,“ Kolbrún segir það hafa verið þvílíkur munur á þjónustu.
Hjá Krabbameinsfélaginu sóttu bæði Kolbrún og hann fjárhagsaðstoð, sálgæslu og dóttir þeirra fór einnig í viðtal. Kolbrún tók þátt í endurhæfingardagskrá sem hún segir hafa gagnast sér mjög vel. Kolbrúnu finnst mikilvægt að aðstandendur sæki sér einnig aðstoð í Krabbameinsfélagið. „Þetta er líka mikið áfall fyrir fjölskylduna.“ Kolbrún segir það hafa munað öllu að fá aðstoðina sem þau fengu hjá Krabbameinsfélaginu á Selfossi og að þau bæði höfðu ekki neitt slæmt að segja um félagið. Þau fóru bæði í íþróttir þarna og slökun. „Bara góð reynsla og dásamlegt fólk sem tekur á móti manni.“
Máttleysið versta tilfinningin
Kolbrún segir það hafa verið langerfiðast sem aðstandandi að finna tilfinninguna fyrir hjálparleysinu.
„Ég var náttúrulega ekki sjálf persónulega að ganga í gegnum veikindin og ég gat ekki hjálpað honum á nokkurn einasta veg nema bara að vera til staðar. Ég var bara þarna og sá hvað honum leið illa.“ Kolbrún lýsir tilfinningunni að horfa upp á maka sinn ganga í gegnum veikindin og tengja ekki við hann og hafa ekki hugmynd um hvernig sú tilfinning væri.
Kolbrún segir sig sjálfa lítið hafa pælt í hvaða áhrif þetta hafði á sig sjálfa. „Maður er alltaf eitthvern veginn í þessum gír að halda bara áfram alveg sama hvað gerist,“ segir hún. Hún segir þó að hún hafi tekið betur eftir hvað tími hennar með fjölskyldunni er dýrmætur og henni finnst maður eiga að nýta hvert augnablik í það sem skiptir mann raunverulega máli. „Ef ég myndi deyja á morgun, væri ég ánægð með það sem ég er búin að gera?“ Hún segir að veikindin hafi kennt henni að njóta augnabliksins og ekki vera að flýta sér í ókláruðum verkefnum.
SEG

