2.9 C
Selfoss

Að lifa lífinu, lifandi

Vinsælast

Í tilefni bleiks októbers ræddi DFS.is við Maríu Ben Ólafsdóttur þar sem hún deilir sögu sinni af baráttu við krabbamein.

María er 51 árs og er fædd og uppalin á Selfossi og býr þar ásamt eiginmanni sínum og tveimur börnum sem eru 15 og 12 ára. Hún kennir félagsgreinar við Menntaskólann í Kópavogi og hefur starfað þar síðan 2019.

María er mikill náttúruelskandi og er dugleg að fara út í göngutúra. Henni þykir ekkert betra en að eyða tíma með fjölskyldunni eða ferðast með þeim. Henni finnst gaman að teikna og lesa í frítíma sínum.

Símtal sem breytti öllu

Um lok sumars 2020 fer María að taka eftir breytingum á hægra brjóstinu. Hún hafði verið nýkomin úr sumarfríi frá vinnu. Undirbúningur fyrir kennslu vegna Kórónufaraldursins hafði verið á fullu og það var mikil óvissa um hvernig kennsla um veturinn yrði. María fer til heimilislæknis sem sendir hana á leitarstöðina hjá Krabbameinsfélaginu. Viku seinna fær María símtal.

María var stödd í kennslutíma þegar hún fær símtalið um að hún sé með kabbamein. „Það var hringt í mig úr öðru símanúmeri en það sem var gefið mér, svo ég þekkti ekki númerið sem hringdi. Svo ég fer fram úr tíma og svara bara,” segir María. María segir það hafa verið óþægilegt að fá þessi skilaboð með fullan bekk inni að vinna verkefni.

María árið 2023 að taka þátt í endurhæfingaverkefninu Kastað til bata í Langa á Mýrum sem konur sem hafa fengið brjóstakrabbamein býðst að fara í. Mynd: Aðsend.

Læknarnir vildu þá að María kæmi aftur í skimun þar sem þá grunaði að það væri líka búið að dreifast í hinu brjóstinu. „Mér finnst það svolítið sérstakt að það var ekki bara tekið sýni á báðum brjóstum í einu fyrst þeim grunar eins og það gæti líka verið í hinu,“ María lýsir stressi að þurfa að bíða eftir að fá niðurstöður úr hinni skimuninni. Niðurstöður sýndu að krabbameinið hafi náð til beggja brjósta og eitla. María segir þetta hafa verið mikið sjokk og áfall fyrir bæði hana og fjölskyldu. „Það er svo mikið áfall og að heyra orðið krabbamein, því maður veit ekkert hvernig staðan er. Er þetta á einum stað er þetta búið að dreifa sér, maður fer að hugsa alls konar.“

Áframhaldandi barátta

María fer strax í veikindaleyfi kjölfar greiningarinnar. Henni fannst það mjög gott að getað undirbúið sig andlega fyrir ferlið og átökin framundan. Meðferðin reyndist ganga vel að sögn Maríu og henni þótti frábært að geta farið í lyfjameðferð í sínum heimabæ á Selfossi í stað þess að keyra í Reykjavík. „Það var rosalegur munur að geta farið á Selfossi og rosalega góð þjónusta hér á lyfjadeildinni,“ segir María. María upplifði ekki miklar aukaverkanir á lyfjameðferðinni en veikindin komu með sínum áskorunum. Hún fer í skurðaðgerð í apríl 2021 þar sem bæði brjóstin eru fjarlægð. María byrjar aftur í 75% starfi í ágúst 2021, rúmlega ári eftir að hún greinist.

Eftir þrjú ár í eftirliti og krabbameinslaus fer hún aftur í október 2024 í reglulegt eftirlit. María hafði verið með verk í bakinu og læknirinn biður hana að láta vita ef hann versnar. Nokkrum dögum seinna var María orðin það verkjuð í bakinu að hún fer upp á bráðamóttöku á Selfossi þar sem hún var send í tölvusneiðmynd. Í ljós kom að það fundust meinvörp í beinum á tveimur stöðum, annars vegar í mjöðminni og hryggjarlið, sem skilur Maríu eftir með ólæknandi krabbamein. „Eftir það fór ég á andhormónalyf og læknirinn kallar það að krabbameinið sé í dvala, að það sé engin breyting og það hefur ekki verið breyting í heilt ár,“ segir María.

Það var daginn eftir sem María greinist í annað sinn þar sem bleiki dagurinn var haldinn á vinnustaðnum hennar. Þrátt fyrir áfallið ákvað hún að mæta í vinnuna sem var síðasti dagurinn fyrir vetrarfrí. „Það var auðvitað mjög erfitt,“ segir hún, „en ótrúlega dýrmætt, því ég fékk svo mörg faðmlög og mikinn stuðning frá vinnufélögunum þennan dag.“

Sterkur stuðningur í heimsfaraldri

Fjölskylda Maríu var henni ómetanlegur stuðningur í gegnum veikindin. Henni fannst gott hvað hún gat eytt tíma með manninum hennar og börnum þar sem Covid ríkti á þessum tíma. Henni fannst þó verra að geta ekki hitt ættingja eins og systur sínar vegna faraldursins. „Maður þorði ekki mikið að fara út svo ég hitti þær ekki mikið. En ég var í góðum samskiptum við þær í gegnum síma,“ segir María, „en svo þegar það fór aðeins að opnast um vorið þá fór ég aðeins að fara meira út. Ég fór í nokkur skipti og borðaði í vinnunni í hádeginu með vinnufélögum og fór þá aðeins að fara á opin hús hjá krabbameinsfélaginu.“ Maríu fannst mikilvægt að loka sig ekki alveg inni í veikindunum.

Bleika slaufan sem Andri Már, sonur Maríu smíðaði í skólanum síðasta vetur handa henni eftir að hún greindist aftur. Mynd: Aðsend.

Þó að starfsemi Krabbameinsfélagsins hafi að hluta til verið lokuð vegna Covid nýtti María ýmis úrræði og stuðning sem var í boði. Hún fékk ráðgjöf og fór á opin hús þar sem hún hitti aðrar konur sem höfðu gengið í gegnum það sama. María segir Krabbameinsfélag Árnessýslu skipta miklu máli og að það hafi hjálpað henni að minna hana á að hún væri ekki ein. María nýtti sér einnig afþreyingar innan félagsins. „Svo hef ég líka nýtt mér að fara á golfnámskeið í gegnum krabbameinsfélagið sem mér finnst rosalega skemmtilegt og kynntist þar fullt af fólki“.

Veikindi eru eins og fjallganga

María er í dag í fullri vinnu. „Ég finn svo sem ekkert fyrir því, mér líður alveg mjög vel, ég fer í ræktina og ég lifi bara mjög eðlilegu lífi.“ María segir að viðhorf sitt á lífið hafi gjörbreyst á skömmum tíma. Hún segir að þakklæti sé henni efst í huga og að hún kunni mikið meira að meta þær litlu stundir í lífinu sem fólk gefur sér kannski ekki tíma í að njóta. „Eins og bara heimalestur með börnunum eða að fara í göngutúr með manninum mínum, drekka kaffibolla með vinnufélögunum,” segir María, „fólk gleymir að njóta í öllum þessum hraða og samfélagi sem við erum í dag. Það er svo mikilvægt að njóta og lifa lífinu lifandi.“

Foreldrar Maríu voru bæði langveik með ólæknandi sjúkdóm. María segir sig sjálfa hafa upplifað þeirra ferli að einhverju leyti og að þeirra reynslur hafi kennt henni margt um sína eigin. „Þau voru mínar fyrirmyndir. Ég held það hafi hjálpað mér rosalega mikið í mínum veikindum að hafa verið búin að ganga í gegnum þeirra veikindi,“ segir María.

María vill benda fólki í sömu stöðu á að nýta sér öll úrræði og stuðning sem er í boði alls staðar og að gefast ekki upp. María líkti ferlinu sínu við tímann þar sem hún bjó tímabundið í Perú í Andesfjöllunum. „Þetta er svolítið eins og að fara í fjallgöngu. Þú ert á leiðinni upp og þú ert alveg við það að gefast upp af því það koma svo erfiðir kaflar og maður er kíldur niður, en maður verður bara að harka af sér og halda áfram, af því maður kemst í gegnum þetta.“

Nýjar fréttir