2.6 C
Selfoss

Andalæri í dós með ofnbökuðum gulrótum

Vinsælast

Ingvi Már Guðnason er sunnenski matgæðingur vikunnar.

Ég vil byrja á því að þakka Gabríel fyrir að skora á mig.

Ég ætla að deila hér mjög góðri uppskrift sem þægilegt er að grípa í á laugardögum þegar maður hefur kannski ekki mikinn tíma en langar samt í eitthvað í betri kantinum. En þetta eru andalæri úr dós og meðlæti.

Andalæri í dós

Ég tek andalærin upp úr dósinni og set á ofnplötu, set þau inn í ofn við 180 gráður í 15-20 mín eða þar til að skinnið er orðið pínu stökkt, stundum krydda ég þau með timian.

Kartöflurnar (helst litlar) forsýð ég í svona 10-15 mín, síðan tek ég þær í tvennt og velti þeim upp úr afgangsfitunni úr dósinni af andalærunum og krydda með timian og grófu sjávarsalti. Þær set ég síðan í ofninn með lærunum. Stundum tek ég lærin út og hækka þá hitann á kartöflunum til að fá þær aðeins stökkar.

Ofnbakaðar gulrætur

  • Gulrætur
  • Olía
  • Hunang
  • Salt
  • Pipar

Ég velti gulrótunum upp úr olíu, salti og pipar. Ég baka þær svo í 200 gráðu heitum ofni í 20 mín. Stundum set ég þær í loftsteikingarofn (Airfryer) og þegar það eru svona 5 mín eftir drisla ég pínu hunangi yfir þær og læt þær svo klára að bakast í ofninum.

Sósan

  • 2 msk. saxaður skalottlaukur
  • 1 hvítlauksrif
  • 30 ml bolli koník/ brandý
  • 150 ml soð (ég nota anda en má vera nauta)
  • 2 msk. græn piparkorn
  • 75 ml rjómi
  • 2 tsk dijon-sinnep salt
  • Sósujafnari (val)
  • Olía/smjör
  • Skallotlaukur og hvítlaukur steikt upp úr smjöri/ olíu

Því næst er koníakinu/brandýi skvett á pönnuna og áfengið soðið upp úr því, gaman er að vera með smá stæla og kveikja í því en það verður líka til þess að áfengið er fljótara að sjóða úr. Bætið þá piparkornunum út á pönnuna og sjóðið áfram í 2-3 mín, hrærið svo sinnepinu saman við. Hellið síðan kjötsoðinu yfir og sjóðið niður um ca. þriðjung. Bætið rjómanum út í og sjóðið aftur niður um þriðjung. Smakkið til með salti. Stundum þarf að þykkja sósuna með sósujafnara, stundum þegar þannig liggur á bæti ég við vænni sneið af góðum gráðaosti og smá sultu.


Mig langar að skora á Júlíu Sjörup Eiríksdóttur matgæðing með meiru að koma með uppskrift í næsta blað.

Nýjar fréttir