Í grein sem undirritaður skrifaði og birt var í Dagskránni 31. júní 2025 var varað við væntanlegu skipulagsslysi í Hveragerði. Líta má á þessa grein sem framhald hennar því margir Hvergerðingar hafa komið að máli við undirritaðan og beðið um frekari skýringar á því hvaða sýn hann hafi á nýtingu lands Hveragerðis, og þróun skipulagsins almennt. Undirritaður hefur hætt öllum daglegum störfum vegna aldurs en starfaði í meira en áratug að gerð aðal- og deiliskipulagsáætlana víða um landið. Hann er arkitekt og skipulagsfræðingur og telur sig hafa góða þekkingu og reynslu á skipulagsáætlunum.
Rifjum upp gallana á aðalskipulagstillögu skipulagsnefndar: Þjóðvegurinn og háspennulínur kljúfa Hveragerði í tvennt, í norður og suður, með 150-200 metra breiðu belti. Besta og verðmætasta land bæjarfélagsins fer forgörðum. Umferð sem fer um þjóðveginn daglega er um 20.000 bílar að degi til, og þarf því að hafa hljóðmanir báðum megin. Norðurhlutinn á um 5-7 ár eftir í fullnýtingu, en syðri hlutinn mun þróast á næstu 25 árum, allan þann tíma sem hálfgerður „undanvillingur“. Skiptingin útilokar samfellda byggð og þjónustu.
Lausnin er mjög einföld. Það þarf að færa þjóðveg og háspennulínur að vesturmörkum bæjarins og eins langt suður og eðlilegt er fyrir þjóðveginn. ALLIR gallarnir hverfa. Byggðin og samfélagsleg þjónusta verður samfelld, landnýtingin mjög góð og miðja bæjarlandsins væri þá nýtt fyrir kjarnastarfsemi bæjarfélagsins. Hávaðinn og mengunin frá þjóðveginum flyst frá byggðinni. Vindrós fyrir Hveragerði sýnir að tíðni vinda er mest úr norðri, blæs til suðurs frá bænum.
Aðrar skipulagshugmyndir undirritaðs eru eftirfarandi: Eina aðkoman frá þjóðveginum inn í bæinn verði um Breiðumörk, sem lengist til suðurs að hinu nýja hringtorgi. Núverandi verslunarsvæði stækkar til suðurs við austanverða Breiðumörk. Þar yrði nýjum verslunarkjarna, jafnvel tveimur, komið fyrir með lágvöruverðsverslun(um), sérverslunum, þjónustu, snyrtingum og torgi(um) fyrir uppákomur og markaði. Miðbæjarsvæðið verði eingöngu ætlað fyrir uppbyggingu miðbæjarþjónustu, enga aðra starfsemi sem síðar þyrfti að kaupa upp, rífa eða flytja. Til að mæta aukningu í ferðaþjónustu þarf að taka frá lóðir fyrir tvö hótel við vestanverða Breiðumörk. Þar væri einnig lítill og fallegur miðbæjargarður til að „lofta” miðbæinn. Ráðhús, þegar eða ef reist verður, myndi sóma sér vel á lóðum gamla kvennaskólans og verslunarinnar Reykjafoss þegar þau verða rifin. Þar er hinn raunverulegi hjartastaður Hveragerðis, segja innfæddir.
Við hringtorgið komi stór umferðamiðstöð með almenna ferðamannaþjónustu og stórt bílastæði fyrir langferðabíla og fólksbíla. Þessi umferðamiðstöð gæti þjónað innanbæjarstrætisvögnum þegar þeir taka til starfa. Líkleg strætisvagnaleið er um Þelamörk og framlengingu hennar, núverandi þjóðveg, Breiðamörk, Laufskóga og inn í dal.
Með auknum fjölda íbúa og ferðamanna þarf Breiðamörk að vera búin undir miklu meiri umferð. Hún þarf að breikka í minnst þrjár akreinar. Við Þelamörk kæmi hringtorg með tímanum. Tíminn mun leiða í ljós hvort þörf verður á 4 akreinum en gott er að vera við því búinn. Breiðamörk getur aðeins breikkað til vesturs á kostnað þeirra lóða eða mannvirkja sem þar hafa verið reistar. Þessar breytingar þarf að sýna strax á aðalskipulagsuppdrætti og nefna í skýrslu.
Allur nýr iðnaður og gróðurþjónusta verði í bæjarlandi sunnan nýs þjóðvegar með aðkomu frá hringtorgi og Þorlákshafnarvegi. Þangað flytjast þær stofnanir og fyrirtæki sem ekki eiga heima í íbúahverfum, t.d. sorpmóttaka o.fl. Ekki er vitað um stefnu bæjarfélagsins um staðsetningu gróðurhúsa eða nýja skolpfráveitu fyrir hina væntanlegu byggð.
Með þessari grein fylgja tveir skipulagsuppdrættir. Annars vegar tillaga skipulagsnefndar, í umboði bæjarstjórnar, að aðalskipulagi 2025-2037 og hins vegar handteiknuð skipulagssýn undirritaðs um mögulega þróun Hveragerðis næstu 12-25 ár. Kostir og gallar sjást vel með samanburði.
Lokaorð: Núverandi tillaga að aðalskipulagi er mjög slæm fyrir Hveragerði. Slysið er án efa upprunalega vegna andvaraleysis skipulagsnefndar, bæjarstjórnar og ráðgjafa síðasta kjörtímabils. Sú stjórn hefði aldrei átt að semja við Vegagerðina um legu þjóðvegar, né við Landsnet um að grafa lagnir í jörðu. Núverandi bæjarstjórn virðist því miður sætta sig við þessi skipulagsafglöp og verður þannig meðsek. Hún ætti, æru sinnar vegna, að endursemja við Vegagerðina og Landsnet um tilfærslu á vegi og lögnum. Sýna ætti tilfærslu í aðalskipulagi og þá ber Vegagerðinni og Landsneti að færa sig. Hagsmunir Hveragerðis eiga alltaf að ganga fyrir. Það þarf að setjast að samningaborðinu og semja um flutning. Sjálfsagt koma kröfur frá Vegagerðinni og Landsneti sem bæjarfélagið þarf að virða. Það kostar að gera mistök, en oftast mun meira ef þau eru ekki lagfærð. Bærinn þarf að kaupa til baka land það sem Vegagerðin þurfti að kaupa, en það er land sem bærinn hefði þurft að kaupa hvort sem er. Það er ekki „of seint“ að bregðast við, en það þarf að gerast núna með nýju og endurbættu aðalskipulagi.
Endanleg niðurstaða er í höndum bæjarstjórnar Hveragerðis. Henni er falið skipulagsvaldið samkvæmt lögum og lokaábyrgðin því hennar. Henni ber að tryggja að besta lausnin sé valin fyrir framtíðarþróun Hveragerðis. Það er enn ekki „of seint“. Álit Skipulagsstofnunarinnar á væntanlegri lokatillögu gæti haft áhrif á staðfestingu ráðherra.
Róbert Pétursson


