2.9 C
Selfoss

Pastaréttur með kjúkling í rjóma- og chili-sósu

Vinsælast

Gunnar Freyr Barkarson er sunnlenski matgæðingur vikunnar.

Þá er komið að því. Ég vissi alltaf að ég yrði einn daginn dreginn í fjölmiðla til að deila leyndardómum mínum til landans, en aldrei hefði ég giskað á að vera svona útnefndur af eigin félögum. Hér er ein mín helsta leyniuppskrift úr eldhúsinu, pasta og kjúklingur í rjóma- og chili-sósu. Varist eftirlíkingar.

Innihald

  • 400 g Linguine Pasta
  • Tvær kjúklingabringur
  • 500 ml Thai Choice Sweet Chili-sósa
  • 1 pakki af rammíslenskum sveppum
  • 250 ml rjómi
  • Grænmeti að eigin vali, mæli með gulrótum og brokkolí.

Hefjið leikinn á að skera niður sveppi og kjúklingabringurnar í smáa bita. Steikið bæði upp úr smjöri í djúpri pönnu og kryddið vel. Hvítlauksduft er góðvinur sveppanna og paprika fer vel í kjúllann. 

Á sama tíma og þið steikið á pönnunni skulið þið hita vatn til suðu í pott fyrir pastað. Bætið olíu og salti við vatnið til að þykjast vera kúl. Ef þið eigið gufusuðupott er hollast að skella honum með loki yfir vatnið og setja frosið grænmeti þar með. Ég kýs oftast að nota „First Price“ frosna brokkolíblöndu, en hægt er að setja nánast hvað sem er. Þegar vatnið er farið að vera með læti skal bæta pastanu við og sjóða í rúmar níu mínútur.

Á meðan skal fylgjast með pönnunni og þegar kjúklingurinn er brúnn og tilbúinn skal skella rjómanum og Chili-sósunni yfir. Lækkið hitann, hrærið vasklega, og leyfið þessu að malla þar til sósan verður þykk og góð. Þegar pastað er að verða fullsoðið skal taka gufusoðna grænmetið af og bæta á pönnuna.

Sigtið út pastað með salti, pipar og endilega smá hvítlauksolíu. Nú má annaðhvort bera þetta fram á borð í potti og pönnu, eða hræra saman í stærra stelli ef það finnst. Rifinn ostur er hérna góður fylgifiskur þegar maturinn er borinn fram.

 


Ég þarf víst að útnefna næsta matgæðinginn til að deila leyndardómum eldamennskunnar, og þrátt fyrir lúmskar hótanir og illt augnaráð skal það vera listamaðurinn og heimspekingurinn herra Árni Jón Gunnarsson sem þarf að svara fyrir sig í næsta pistli. Og hana nú.

Nýjar fréttir