2.9 C
Selfoss

Með hamarinn á lofti í 80 ár

Vinsælast

Með hamarinn á lofti í 80 ár
Ævisaga staðarsmiðs Selfoss, Sigfúsar Kristinssonar

Víða liggja spor Sigfúsar Kristinssonar á Selfossi þar sem hann hefur alið allan sinn aldur. Hann er völundur á tré og hefur verið með hamarinn á lofti í 85 ár. Sigfús sýnir nú á sér nýja hlið og hefur skrifað ævisögu í máli og myndum, 93 ára að aldri, geri aðrir betur. Stílvopnið hefur hann nú tekið í hönd sér þannig að um munar og mundar það með sama listfengi og hamarinn. Honum er því ekki stirt um stef og stílvopninu beitir hann fimlega þar sem hárbeittan húmor hans má lesa milli línanna. Eftir lesturinn verðum við margs fróðari um byggingasögu Selfoss. Með sanni má segja að saga Sigfúsar sé samofin sögu Selfoss.

Hamarinn og penninn eru ekki lík verkfæri. Bókina skrifar hann eins og hann sé að byggja hús, leggur faglegan grunn að verkinu en um leið fáum við sumpart innsýn inn í horfinn heim. Samt lifir þessi heimur enn í gegnum byggingar Sigfúsar sem bera hagleik hans órækt vitni. Í Njálu segir:,,Engum manni er Kári líkur fyrir hvat-leik sinn“. Það er við hæfi að færa þessa mannlýsingu yfir á Sigfús Kristinsson, manninn sem staðið hefur í stafni í áratugi og stjórnað heilum her af smiðum sem byggt hafa margar af stærstu byggingum Selfoss.

Það er mikill fengur fyrir okkur Árnesinga að fá út bók Sigfúsar. Æskuárum hans á Selfossi sem og ættboganum í Litlu-Sandvík og Hlíð í Gnúpverjahreppi eru gerð góð skil sem og sveitadvöl hans hjá frændfólkinu í Skeiðháholti. Atvinnusaga Selfoss fléttast auðvitað inn í bókina og þar kemur Sigfús svo sannarlega við sögu. Söguna af því er Mjólkurbú Flóamanna fékk leyfi til að byggja nýtt mjólkurbú utan um hið gamla er að finna í bókinni. Endurbygging þess gamla kom síðar og þá í formi nýs miðbæjar á Selfossi. Hér tókst Agli Thorarensen að snúa á ráðherra- og embættismannavaldið. Í framhaldinu tók hvíta gullið að renna um búið og Selfoss stækkaði og sveitirnar blómstruðu. Selfoss breyttist í framhaldinu úr litlu þorpi í bæ. Þeir unnu þétt saman, Egill og Kristinn Vigfússon faðir Sigfúsar og í sameiningu náðu þeir heilum vagni heim að aka.

Aðalsmerki bókarinnar er að Sigfús leggur til allt í senn; litina, lyktina og leiktjöldin. Sigfús birtist okkur ljóslifandi á sviðinu og rödd hans fær að hljóma. Það á líka einkar vel við enda sviðsumgjörð nútímans á Selfossi að stórum hluta mótuð með hamri Sigfúsar.

Sigfúsi og Þór Vigfússyni skólameistara fyrir framan byggingu Fjölbrautaskóla Suðurlands. Myndin er tekin 1985.

Þessi bók segir sögu athafnamanns sem svo sannarlega hefur sett svip á umhverfi sitt. Bók Sigfúsar er gott yfirlit um ævi hans og störf. Hann byggir Sjúkrahús Suðurlands og hefur aldrei verið lagður inn veikur. Hann byggir Fjölbrautarskóla Suðurlands, hið sérstæða hús sem doktor Maggi teiknaði og hafði Lómagnúp í austri sem viðmiðið. Laugardalskirkja er nú heimsfræg sem fögur kirkja Bobby Fischers, sem Sigfús smíðaði og Bjarni Pálsson frændi hans teiknaði. Fagribær er fallegur gamall bær sem er nú tákn bæjarins og yndi ferðamanna. Þennan bæ smíðaði hann í ellinni með Benedikt dóttursyni sínum, sér og öðrum til yndisauka, gerði strákinn að trésmið og nú nemur Benedikt hin æðstu fræði í Bandaríkjunum í verkfræði.

Í mínum huga er ljóst að hvorki mölur né ryð fær ævistarfi Sigfúsar grandað enda kom það fram í fréttum á dögunum að aldrei hefði greinst mygla í húsum þeim er Sigfús byggði. Komandi kynslóðir Árnesinga munu því njóta dugnaðar stórvinar míns Sigfúsar Kristinssonar.

Starfsmenn Sigfúsar árið 1970. Efri röð f.v. Sigurdór Karlsson, Kristján Samúelsson, Kristján Jónsson, Ólafur Sigurðsson, Guðjón Jónsson, Guðmundur Steindórsson, Kjartan Bjarnason, Haraldur Bjarnason, Andrés Markússon, Grétar Jónsson, Ólafur Ragnarsson, ég, Bogi Nilsson, Guðni Ágústsson fyrrv. ráðherra. Fremri röð f.v. Guðmundur Óskarsson, Páll Sigurþórsson, Gísli Jónsson, Guðmundur Helgason, Sigurður Óli Guðbjörnsson, Hilmar Sveinsson, Magnús Óskarsson.

Enn er Sigfús sterklegur þótt eikin sé farin að bogna, skrifborðið hlaðið gögnum og gaman að hlusta á frásagnargleði staðarsmiðsins. Sólveig Þórðardóttir kona hans stóð við hlið hans á langri ævi, minningin um hana lifir og ættstofninn er blaðsterkur og genin skjóta rótum í nýjum kynslóðum. Margt er hinum hárprúða öldungi hugleikið, hann fylgist vel með og hefur skoðanir á öllu milli himins og jarðar. Draumar og andleg málefni eru honum hugleikin þegar sól slær silfri á voga.

Að endingu vil ég óska Sigfúsi og hans góða fólki til hamingju með þessa gagn-merku ævi og ævisögu. Bókin er á kjarngóðu máli og mjög í anda meistarans.

Guðni Ágústsson

Nýjar fréttir