Nýtt félag hefur litið dagsins ljós í íslenskri smásölu með stofnun Dranga hf., eftir að Orkan og tengd félög innan SKEL hf. gengu frá kaupum á Samkaupum. Samkeppniseftirlitið hefur samþykkt viðskiptin og eru nú öll skilyrði uppfyllt.
Drangar hf. sameina nokkur af sterkustu vörumerkjum landsins undir einn hatt. Þar má nefna Orkuna með sjálfsafgreiðslustöðvar og Löður bílaþvott, lyfjaverslanir Lyfjavals, og verslanakeðjur á borð við Nettó, Krambúðina, Kjörbúðina, Iceland, 10-11, Prís og netverslunina Heimkaup. Samtals telja þjónustustöðvar Dranga 161 um land allt.
Heildartekjur félaganna sem nú sameinast undir nafni Dranga námu um 75 milljörðum króna á árinu 2024. Markmið nýja félagsins er að reka skilvirka og hagkvæma starfsemi með áherslu á góða þjónustu, breitt vöruúrval og sterka ásýnd vörumerkja. Stefnt er að skráningu félagsins á markað í Kauphöll Íslands fyrir árslok 2027.
Auður Daníelsdóttir, sem stýrt hefur Orkunni undanfarin ár, tekur við sem forstjóri Dranga hf. Hún segir þetta vera mikilvægt og spennandi skref.
„Það er ánægjulegt að koma að stofnun Dranga hf. og inn í rekstur Samkaupa enda félagið með langa sögu, frábært starfsfólk og trausta viðskiptavini um allt land. Við sjáum mikil og jákvæð tækifæri með þessum kaupum til að skapa eitt hagkerfi sem myndar heildræna lausn fyrir viðskiptavini. Vegferð okkar er skýr. Ánægja starfsfólks og viðskiptavina er í fyrirrúmi og áhersla á hagkvæmni í rekstri með einföldum og snjöllum lausnum. Það er því tilhlökkun hjá okkur að taka skrefið inn í nýtt framboð á þjónustu til viðskiptavina með því að koma inn á matvörumarkað til neytenda,“ segir hún.
SKEL hf. er stærsti hluthafinn í Dranga með 68,3% eignarhlut.

