5.5 C
Selfoss

Krossgátuhöfundurinn Hafliði – 90 ára minning

Vinsælast

Hafliði Þórður Magnússon fæddist í Hergilsey á Breiðafirði þann 16. júlí árið 1935. Hann fluttist 6 ára í Arnarfjörð þar sem fjölskyldan bjó á ýmsum stöðum en lengst af bjó hann á Bíldudal. Hafliði bjó einnig um tíma í Reykjavík.

Hafliði starfaði m.a. sem sjómaður og þá mest á síðutogurum, við fiskvinnslu og einnig kenndi hann sjóvinnu. Þá vann hann við uppbyggingu Mjólkárvirkjunar í Arnarfirði og endurgerð fæðingarbæjar Jóns Sigurðssonar á Hrafnseyri við Arnarfjörð.

Frá árinu 1998 bjó Hafliði síðan á Selfossi ásamt sambýliskonu sinni Evu Þórarinsdóttur frá Suðureyri við Súgandafjörð. Á Selfossi vann Hafliði ýmis störf, síðast hjá SG við trésmíðar þar sem hann lauk hefðbundinni starfsævi árið 2002. Hafliði Magnússon var fyrst og fremst: rithöfundur, ljóðskáld, söngleikjahöfundur og málari. Þá lagði hann mikla rækt við sagnaþætti af ýmsum toga og flest í því tengdist Bíldudal og Arnarfirði. Hann var svo sannarlega margþættur listamaður og þeim störfum helgaði hann sig alfarið eftir að hann hætti störfum hjá SG á Selfossi.

Hafliði Magnússon var félagslyndur og hrókur alls fagnaðar í hópi vina sinna. Hann vann mikið með leikfélaginu Baldri á Bíldudal og var formaður þess um tíma. Hann samdi ótal gamanbragi sem fluttir voru við sérstök tækifæri. Þó nokkur leikrit og söngleikir eftir hann voru fluttir á Bíldudal og víðar um land og einnig erlendis. Hann skrifaði fjölmörg ritverk, bækur og greinar.

Hafliði Magnússon samdi í rúman áratug vikulegar krossgátur fyrir Sunnlenska fréttablaðið á Selfossi sem nutu mikilla vinsælda. Myndtök hans og orðaval í krossgátunum voru með sterka tengingu við líðandi stund samfélagsins í bland við menningararfleifðina.

Hafliði Magnússon, listamaður frá Bíldudal, lést þann 25. júní árið 2011 á heimili sínu á Selfossi. Minningarathöfn um Hafliða Magnússon fór fram í Laugardælakirkju við Selfoss þann 30. júní. Hafliði Magnússon var jarðsunginn frá Bíldudalskirkju í Arnarfirði laugardaginn 2. júlí 2011. Prestur á báðum stöðum var séra Egill Hallgrímsson í Skálholti. Meðfylgjandi krossgáta Hafliða Magnússonar er ein af síðustu krossgátum hans árið 2011 og hefur ekki verið birt Sunnlendingum áður.

Blessuð sé minning Bílddælingsins Hafliða Magnússonar á Selfossi.

Björn Ingi Bjarnason,
Bjarni Harðarson,
Jóhann Páll Helgason.

 

– Hrútavinafélagið Örvar á Suðurlandi –
– SAMAFL – aðfluttra Vestfirðinga og heimamanna á Suðurlandi.
Hreyfiafl þjóðlegrar menningararfleiðar 
til sjávar og sveita.

Nýjar fréttir