2.9 C
Selfoss

Höggmyndir í hálfa öld

Vinsælast

Helgi Gíslason myndhöggvari flytur fyrirlestur og sýnir myndir af höggmyndum sínum á Kvoslæk í Fljótshlíð laugardaginn 19. júlí kl. 15.00.

Helgi sýndi í fyrsta sinn verk opinberlega á samsýningu í hálfbyggðum Kjarvalsstöðum þegar stofnað var til Listahátíðar í Reykjavík vorið 1970. Hann hafði þá lokið prófi í kennaradeild Myndlista- og handíðaskólans en tók svo eitt ár til viðbótar við skólann ásamt tveimur öðrum í akademískri deild sem Hörður Ágústsson setti á laggirnar. Um vorið sýndu svo þremenningarnir með Septemhópnum á Kjarvalsstöðum. Helgi hélt til Gautaborgar í Svíþjóð og stundaði nám við Konsthögskolan Valand 1971-1976. Síðan hefur hann sinnt listsköpun sinni auk þess að kenna á listasviði í Fjölbrautarskólanum í Breiðholti frá 1977 til 2017.

Helgi hefur á  ferli sínum gert höggmyndir í opinber rými í Reykjavík og víða á  landsbyggðinni. Meðal annars má nefna bronsdyr Seðlabankans, altarismynd í Fossvogskirkju, kirkjudyr og aðra innviði, minnisvarða um sjómenn á Höfn í Hornafirði og höggmynd við Stjórsýsluhúsið í Þorlákshöfn.

Helgi hefur efnt til tuga sýninga hér heima og erlendis auk þátttöku í fjölda samsýninga. Síðast setti hann upp einkasýningu í Himinbjörgum, listhúsi á Hellissandi, fyrr á þessu ári.

Nýjar fréttir