Selfoss Karfa hefur gert samninga við átta leikmenn fyrir komandi tímabil í 1. deild kvenna í körfuknattleik. Um er að ræða mikilvægt framhald á metnaðarfullri uppbyggingu kvennaliðs félagsins, sem tók þátt í Íslandsmóti í fyrsta sinn á síðasta tímabili.
Leikmennirnir sem hafa skrifað undir eru þær Anna Katrín, Valdís Una (vantar á meðfylgjandi mynd), Perla María, Vilborg Óttarsdóttir, Diljá Salka, Eva Margrét, Karólína Waagfjörð og Sigríður Svanhvít.
„Þetta markar stórt skref í áframhaldandi þróun kvennastarfs Selfoss Körfu og sýnir skýrt að liðið hyggst láta til sín taka á komandi leiktíð. Mikil eftirvænting ríkir meðal stuðningsmanna að sjá liðið mæta til leiks á ný þegar keppni hefst í haust,“ segir í frétt frá félaginu.

