Grill- og tónlistarhátíðin Kótelettan byrjaði með látum í gærkvöldi á hátíðarsvæðinu við Hvítahúsið á Selfossi. Boðið var upp á tónleika þar sem frítt var inn og ekkert aldurstakmark, og fólk á öllum aldri kom til að njóta. Hljómsveitirnar Krummafótur og Út í hött opnuðu kvöldið, VÆB-bræður fóru á kostum eins og venjulega, stórsveitin Todmobile átti stórleik og Birnir lokaði svo kvöldinu.
Í kvöld hefst svo eiginleg tónleikadagskrá Kótelettunnar og heldur áfram á laugardagskvöld, auk þess sem boðið er upp á veglega fjölskyldudagskrá í Sigtúnsgarði eftir hádegi á morgun. Veðurspáin gerir ráð fyrir stillu á Selfossi yfir helgina og allt að 16 stiga hita.

Ljósmynd: Mummi Lú.
Risadagskrá í tilefni afmælisins
Listi flytjenda er glæsilegur og fjölbreyttur. Meðal þeirra sem koma fram eru:
Friðrik Dór, Daníel Ágúst, Helgi Björns, Bríet, Birnir, Stefán Hilmarsson, Herra Hnetusmjör, Patr!k, Páll Óskar, Stuðlabandið, XXX Rottweiler, Hubba Bubba, Klara Einars, Saint Pete, Háski, Flóni, Bandmenn, Nussun X Hugo, Ingi Bauer, Gústi B, DJ Egill Spegill, Lil Curly, Izleifur, Koppafeiti, Tónhylur Akademía – og fleiri óvæntir gestir.

Ljósmynd: Mummi Lú.
Stærra svæði fyrir stærri hátíð
„Í tilefni tímamótanna verður hátíðarsvæðið stækkað verulega – markmiðið er að bæta aðstöðu og auka þægindi fyrir gesti,“ segir Karen Lind Einarsdóttir, viðburðarstjóri Kótelettunnar. Ekki verður bætt við aðgöngumiðum – markmiðið er betri upplifun, ekki fleiri gestir.

Ljósmynd: Mummi Lú.
Fjölskylduhátíð í Sigtúnsgarði
Á fjölskyldusvæðinu í Sigtúnsgarði fer fram sannkölluð sumarveisla: tívolí, markaður, kynningar og BBQ Festival þar sem hægt er að skoða og smakka það besta sem íslenskir framleiðendur hafa upp á að bjóða. Aðgangur er ókeypis alla helgina.
Stóra grillsýningin
Laugardaginn 12. júlí kl. 13:00–16:00 fer fram stóra grillsýningin. Þar gefst grilláhugamönnum kostur á að kynnast nýjustu grillunum og grillvörum sumarsins – frá helstu framleiðendum og birgjum landsins.
Á sama tíma fer fram árleg kótelettusala til styrktar Styrktarfélagi krabbameinssjúkra barna (SKB). Verkefnið er unnið í samstarfi við Kjarnafæði, Stjörnugrís, Ali, SS, Kjötbankann, Mömmumat, Char Broil og Olís.
Heiðursgrillarar í ár verða m.a.:
• Hanna Katrín Friðriksson, matvælaráðherra
• Sveinn Ægir Torfason, forseti bæjarstjórnar Árborgar
• Þórir Erlingsson, forseti Klúbbs matreiðslumeistara
• Einar Bárðarson, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja á veitingamarkaði
„Kótelettusalan til styrktar SKB er orðinn órjúfanlegur hluti hátíðarinnar og okkur gleður hversu vel gestir taka þátt í að styðja þetta góða málefni – á jafn ljúffengan hátt,“ segir Einar Björnsson, einn skipuleggjenda Kótelettunnar.

