2.9 C
Selfoss

Todmobile opnar 15 ára afmælishátíð Kótelettunnar

Vinsælast

Tónlistarhátíðin Kótelettan fagnar 15 ára afmæli sínu nú um helgina með glæsilegri dagskrá þar sem um 40 tónlistaratriði koma fram á Eimskipsviðinu. Hátíðin hefst á upphitunartónleikum á fimmtudagskvöldið og þar er ekkert aldurstakmark og frítt inn í boði Viðburðastofu Suðurlands.

Það eru engin smánöfn sem opna hátíðina á þessum upphitunartónleikum því þar mætir hljómsveitin Todmobile með Eyþór Arnalds innanborðs. Auk Eyþórs verða þau Andrea Gylfadóttir og Þorvaldur Bjarni í broddi fylkingar ásamt fullskipuðu bandi og bakraddasöngkonum. Todmobile þarf vart að kynna, en þau hafa verið hryggjarstykkið í íslenskri tónlist síðastliðin 35 ár.

„Það er skemmtilegt og sannur heiður að fá þessa frábæru tónlistarmenn til okkar þegar að við fögnum afmælinu, en til gamans má geta þess að okkar gamli formaður bæjarráðs, Eyþór Arnalds, var mér hvatning á sínum tíma í að gera hátíð tileinkaða kjötinu. Og nú 15 árum seinna náum við honum loksins upp á svið,“ segir Einar Björnsson, framkvæmdarstjóri hátíðarinnar.

Eyþór segist spenntur fyrir kvöldinu. Hann hefur af og til komið fram með Todmobile síðustu ár en þetta er í fyrsta sinn sem hann kemur fram á Kótelettunni.

„Það verður alveg einstakt að koma aftur á Selfoss og stíga á svið með Todmobile á Kótelettunni. Það verður gaman að hitta sitt fólk og sjá hvernig bærinn hefur stækkað og dafnað með hverju árinu. Ég hlakka til að sjá ykkur öll á fimmtudagskvöldið – þetta verða alvöru fjölskyldutónleikar og sannkölluð hátíðarstemning,“ segir Eyþór.

Sem fyrr segir er ekkert aldurstakmark á upphitunartónleikana og frítt inn en fjölskyldutónleikarnir marka upphaf afmælishelgarinnar. Á fimmtudagskvöldið koma einnig fram VÆB, Birnir, Út í hött og hljómsveitin Krummafótur. Helgin verður svo að venju full af tónlist, gleði og viðburðum fyrir alla fjölskylduna, nánari upplýsingar má finna inni á heimasíðu hátíðarinnar www.kotelettan.is.

Nýjar fréttir