Bikarkeppni FRÍ 15 ára og yngri fór fram í blíðskaparveðri á Sauðárkróki þann 5. júlí síðastliðinn. Lið HSK/Selfoss sendi eitt karlalið og eitt kvennalið til keppninnar. Kvennaliðið náði þeim frábæra árangri að verða bikarmeistarar með 59 stig en í heildarstigakeppninni varð lið HSK/Selfoss í 4. sæti með 86 stig, aðeins einu stigi frá þriðja sætinu.
Frá þessu er greint á selfoss.net.
Anna Metta Óskarsdóttir varð þrefaldur bikarmeistari á mótinu. Hún sigraði hástökk þegar hún bætti sinn besta árangur og vippaði sér yfir 1,60m. Hún sigraði einnig í langstökki með bætingu er hún stökk 5,42m sem er jöfnun á HSK-meti Helgu Fjólu Erlendsdóttur í þremur flokkum. Flokkum 15 ára, 16-17 ára og 18-19 ára. Hún var einnig í sigursveit HSK/Selfoss í 1000m boðhlaupi en þær Anna Metta, Ásta Kristín, Adda Sóley og Magnea Furuhjelm skipuðu sigursveitina sem kom í mark á tímanum 2:35,79 mín. Adda Sóley Sæland bætti sinn besta árangur í kringlukasti er hún vann silfur með 32,16m og hún varð síðan þriðja í 300m hlaupi á tímanum 47,15 sek. Ásta Kristín Ólafsdóttir varð í þriðja sæti í spjótkasti með 34,17m langt kast og í kúluvarpi varð hún einnig í þriðja sæti er hún bætti sinn besta árangur þegar hún kastaði 9,82m. Að lokum náði Magnús Tryggvi Birgisson þriðja sæti í kringlukasti er hann kastaði 35,05m og bætti sinn besta árangur. Aðrir keppendur deildarinnar stóðu sig mjög vel og höluðu inn dýrmæt stig þó að þeir næðu ekki á verðlaunapall.


