Árleg kótelettusala fyrir Styrktarfélag krabbameinssjúkra barna fer fram á Tónlistar- og bæjarhátíðinni Kótelettan á Selfossi núna á laugardaginn 12. júlí. Hátíðarhaldarar hafa síðustu ár staðið að sölunni í samstarfi við fyrirtækin Kjötbankann, Ali, Kjarnafæði, Stjörnugrís, SS og Mömmumat. Á kótelettusölunni býðst gestum að kaupa grillaðar kótelettur á staðnum eða til að taka með heim – og styðja þannig beint við mikilvægt starf SKB. Matborðið leggur til ljúffengt kartöflusalat sem selt er með kótelettunum.
„Þetta er eitthvað sem okkur þykir afar vænt um og hefur fest sig í sessi sem órjúfanlegur hluti af Kótelettunni,“ segja skipuleggjendur. „Það gleður okkur ár hvert að sjá hve gestir hátíðarinnar eru viljugir að styðja við mikilvægt starf SKB – á jafn einfaldan og ljúffengan máta.“ segir Einar Björnsson, einn af skipuleggjendum hátíðarinnar.
Síðasta ár safnaði hátíðin 1,4 milljónum króna með kótelettusölunni. Þá tvöfaldaði skipuleggjandi hátíðarinnar, Einar Björnsson, framlagið og afhenti fulltrúum SKB og styrktaraðilum veglega fjárhæð
Gestum hátíðarinnar gefst þar tækifæri á að næla sér í úrvals grillaðar og ferskar kótelettur og styðja um leið við mikilvægt starf SKB. Á hverju ári hafa verið skipaðir sérstakir heiðursgrillarar sem kynntir verða um helgina.

