2.9 C
Selfoss

Frumkvöðlastarf á Suðurlandi

Vinsælast

Sköpun hugmynda, hrinda þeim í framkvæmd, þróa nýjar leiðir og bæta, hefur ávallt verið hluti af framvindu þjóðfélaga. Innleiðing nýrra hugmynda sem leysa tiltekinn vanda eða bæta núverandi kerfi, ferla eða vörur býr til vöxt og verðmæti. Án nýsköpunar geta fyrirtæki ekki haldið samkeppnishæfni sinni. Frumkvöðlastarfsemi er því lykilþáttur í hagvexti landshluta.

Að þróa hugmynd

Eins og flestir vita er leiðin að árangri sjaldnast áfallalaus. Að taka fyrstu skrefin í því að þróa hugmynd áfram getur reynst mörgum erfitt. Margir þættir sem spila inn í, ýmsar hindranir sem þarf að yfirstíga, réttu aðilarnir þurfa að koma að og mörgum spurningum sem þarf að svara. Mistök eru eðlilegur þáttur í þróunarferlinu og er spurningin ekki hvort mistök séu gerð, heldur hvernig þau séu nýtt til að læra af þeim. Svo eru sumir ekki komnir með mótaða hugmynd, en hafa ef til vill áhuga og vilja til að búa til eitthvað sem mætir þörfum í samfélaginu.

Háskólanám á Suðurlandi

Til að styðja við fólk á þessari vegferð hefur Háskólafélag Suðurlands, í samstarfi við Háskólann á Bifröst, kynnt nýtt námskeið á háskólastigi (örnám): Frumkvöðlastarf á Íslandi.

Á námskeiðunum, sem spanna nokkrar vikur, munu nemendur þróa og móta viðskiptahugmyndir, læra að nýta hönnunarhugsun í nýsköpun, kynnast íslensku sprotaumhverfi og stuðningsúrræðum og öðlast innsýn í fjármögnun og rekstur eigin fyrirtækis. Námið er kennt á ensku og er opið öllum sem hafa stúdentspróf, aðfaranám að háskóla eða sambærilegt nám og vilja tileinka sér hagnýta þekkingu í frumkvöðulsstarfi, nýsköpun og rekstri.

Markmiðið er ekki síst að auðvelda þeim sem eru ekki íslenskumælandi að hefja háskólanám, mynda tengsl og öðlast betri innsýn inn í atvinnulífið. Jafnframt getur fjölbreyttur hópur fólks með víðtæka þekkingu og reynslu veitt sjálfum sér og öðrum þátttakendum dýrmætt tækifæri til að byggja upp tengslanet, innanlands og á alþjóðavísu.

Námið fer fram í fjarnámi og samanstendur af þremur sjálfstæðum námskeiðum, hvert metið til 6 ECTS eininga, samtals 18 ECTS ef öll þrjú eru tekin. Verð fyrir hvert námskeið er frá 75.000 kr. Tvö námskeið hefjast 18. ágúst og umsóknarfrestur er til 10. ágúst. Flest stéttarfélög styrkja sína félagsmenn.

Kennarar námskeiðsins hafa öll mikla reynslu af nýsköpunarmálum, þau eru Fida Abu Libdeh, stofnandi GeoSilica, Arnar Sigurðsson, sérfræðingur í skapandi nýsköpun, og Michael Hendrix, fyrrverandi yfirmaður IDEO (USA). Sérstök áhersla er lögð á að námið sé aðgengilegt og þau sem vilja taka fyrstu skrefin í átt að háskólanámi eru hvattir til að taka þátt.

Aðstaða í Háskólafélagi Suðurlands

Til að styðja við nemendur af Suðurlandi sem innrita sig í námskeiðið býður Háskólafélag Suðurlands upp á aðstöðu fyrir staðarlotu með kennurum fyrir hvert þriggja námskeiðanna. Loturnar fara fram á Selfossi og gefa nemendum tækifæri til beinna samskipta við kennara og samnemendur. Gert er ráð fyrir lágmarksfjölda þátttakenda til að staðarlota fari fram.

Að auki veitir Háskólafélagið nemendum einstaklingsmiðaða aðstoð, handleiðslu og ráðgjöf, öllum að kostnaðarlausu, bæði á íslensku eða ensku. Þetta stuðlar að því að nemendur fái viðeigandi tæki og úrræði til að þróa eigin hugmyndir og nýsköpun.

Háskólafélag Suðurlands hefur það að markmiði að styðja við og efla frumkvöðla á Suðurlandi, auka þekkingu og vitund þeirra á sviði nýsköpunar, vöruþróunar og markaðsmála og fjölga þannig vel skilgreindum og mótuðum verkefnum á Suðurlandi. Markmiðið er að til verði nýjar vörur og/eða þjónusta ásamt fjölgun starfa á svæðinu. Þannig munu nemendur ná færni í aðferðum sem eru hagnýtar þegar haldið er af stað við að koma hugmyndum sínum á framfæri og setja á fót rekstrareiningu á Íslandi. Nánari upplýsingar um námskeiðið, Frumkvöðlastarf á Íslandi, Entrepreneurship, má finna á: hfsu.is

Ingveldur Sæmundsdóttir,

Framkvæmdastjóri Háskólafélags Suðurlands.

Nýjar fréttir