3.5 C
Selfoss

Brautarmet slegin í Mýrdalshlaupinu

Vinsælast

Mýrdalshlaupið fór fram í 12. skipti í Vík í Mýrdal 31. maí. Keppt var í 10 km og 21 km hlaupi en auk þess fór fram 3 km skemmtiskokk sem var vel sótt. Veðrið lék við þátttakendur í Vík og var hlaupið ræst í sól og blíðu kl. 11.00 í Víkurfjöru. Hátt í 500 manns voru mættir á ráslínuna, tæplega 200 keppendur í 10 km hlaupinu og tæplega 300 í 21 km hlaupinu. Brautarmet voru slegin í báðum greinum, bæði í karla- og kvennaflokki.

Mikil spenna ríkti fyrir kvennakeppninni í 21 km hlaupinu en Yngvild Kaspersen frá Noregi, ein fremsta utanvegahlaupakona heims mætti til keppni, og búist var við spennandi keppni á milli hennar og Andreu Kolbeinsdóttur okkar fremstu utanvegahlaupakonu. Andrea setti þó fljótlega nokkuð forskot á Yngvild, sem hún bætti síðan í þegar leið á hlaupið og kom fyrst kvenna í mark á tímanum 1.50.32 sem er nýtt brautarmet. Ingvild kom svo önnur í mark á tímanum 1.55.52, sem er líka undir gamla brautarmetinu, og þriðja í keppninni var Elísa Kristinsdóttir á tímanum 1.58.35.

„Mér leið ekkert smá vel í brautinni, og sérstaklega gaman að fá keppinaut erlendis frá. Ég var vel stemmd, en vissi ekki alveg hvaða séns ég átti í að vinna Yngvild, en hún er náttúrulega 3. konan á heimslista ITRA. Þetta spilaðist ekki eins og ég átti von á og fljótlega var ég komin með forskot á Yngvild sem ég síðan jók bara í, en ég mætti auðvitað hungruð í brautina eftir lakan árangur í Kaupmannahafnarmaraþoninu og er bara svakalega ánægð með daginn! Ég gaf allt í þetta í dag svo ég var ekki hissa á því að hafa bætt eigið brautarmet,” sagði Andrea Kolbeins að hlaupi loknu, þar sem hún bætti gamla brautarmetið um sléttar sex mínútur.

Ljósmynd: Páll Jökull Pétursson.

Í karlakeppninni ríkti einnig mikil spenna þegar Þorsteinn Roy Jóhannsson, Halldór Hermann Jónsson og Grétar Örn Guðmundsson urðu hlutskarpastir. Þorsteinn bætti brautarmetið sitt frá því fyrir tveimur árum um réttar fjórar mínútur, en hann kom í mark á tímanum 1.37.56. Næstur á eftir honum kom Halldór Hermann Jónsson á tímanum 1.43.48, og þriðji varð Grétar Örn Guðmundsson á tímanum 1.46.08.

„Ég var í stuði í dag og leið vel á hárri ákefð. Brautin er svo skemmtileg og breytileg að maður fær ekki leið á neinum kafla og er skælbrosandi allan tímann. Mér leið vel og það gekk allt upp í dag. Ég bjóst alveg við að geta bætt brautarmetið um þrjár mínútur, ég vissi að ég hafði það í mér, en ég vissi náttúrulega ekki hvaða keppni ég myndi fá í hlaupinu, eða hversu nálægt næstu menn yrðu. Ég var ekkert að fylgjast með tímanum, mér leið bara vel og leyfði mér að njóta í augnablikinu,” sagði Þorsteinn Roy Jóhannsson ánægður með dagsverkið.

Ljósmynd: Páll Jökull Pétursson.

Keppnin í 10 km hlaupinu var að sama skapi jöfn og spennandi. Í karlaflokki var Gestur Daníelsson hlutskarpastur, hljóp á tímanum 41.06 og bætti brautarmet Sigurjóns Ernis frá því í fyrra um 17 sekúndur. Í öðru sæti varð Sindri Georgsson á tímanum 43.29, og í þriðja sæti varð Luis Rubio á tímanum 45.52.

Ljósmynd: Páll Jökull Pétursson.

Í kvennaflokki var það Íris Dóra Snorradóttir sem vann og sló brautarmet, á tímanum 47.26, í öðru sæti varð Birna María Másdóttir á tímanum 47.51 og í þriðja sæti varð Þorgerður Gyða Ásmundsdóttir á tímanum 56.19. Íris Dóra átti brautarmetið 2023, en Sonja Sif bætti það um níu sekúndur árið 2024, en í dag náði Íris Dóra metinu aftur. „Mér leið vel í hlaupinu, ég keppi aðallega á braut svo mér leið best á flötu köflunum og hækkunin var svolítið erfiðari, en ég stóð mig bara virkilega vel. Ég bætti mig um sex mínútur síðan ég var hérna fyrir tveimur árum, ég vissi ekki alveg við hverju ég ætti að búast, en markmiðið var alltaf að ná brautarmetinu. Þetta var virkilega góð reynsla,” sagði Íris Dóra sem kom gríðarlega sterk til leiks í dag.

Ljósmynd: Páll Jökull Pétursson.

3 km skemmtiskokkið var vel sótt og þar tóku hlauparar á öllum aldri þátt.

Hlaupið hefur skipað sér sess sem eitt vinsælasta og erfiðasta utanvegahlaup landsins og í ár var sýnt beint frá hlaupinu á Youtube-síðu hlaupsins. Þeir Snorri Björnsson og Guðlaugur Ari Jónsson lýstu keppninni af sinni alkunnu snilld en fjölmargir myndatökumenn voru í brautinni og fylgdu fyrstu keppendum í 21 km hlaupinu eftir.

Ljósmynd: Þorgeir Eyfjörð Sigurðsson.

Framkvæmd hlaupsins gekk vel og öll umgjörð hlaupsins var til fyrirmyndar. Hlaupið er skipulagt og haldið af sjálfboðaliðum í góðgerðarskyni og eru ýmis félagasamtök sem njóta góðs af framkvæmd hlaupsins, meðal annars Ungmennafélagið Katla, Jaðarsportklúbburinn Víkursport, Björgunarsveitin Víkverji og Kvenfélagið Ljósbrá. Verslunin Eirberg er helsti samstarfs- og styrktaraðili Mýrdalshlaupsins og fengu allir verðlaunahafar hlaupsins vinninga frá Eirberg.

Ljósmynd: Þorgeir Eyfjörð Sigurðsson.

Nýjar fréttir