Föstudaginn 31.október sl. var haldinn fundur að undirlagi Guðna Ágústssonar í sal MS á Selfossi. MS veitti fundarmönnum skyr og rjóma og kaffi og flatkökur með hangikéti, þjóðleg landbúnaðarmatvæli. Guðni setti fundinn og bauð menn velkomna en síðan tók Trausti Hjálmarsson við fundarstjórn.
Fundarefni snerist um nýjungar í fjárhúsbyggingum. Gunnar Gunnlaugsson byggingameistari hjá Mikael ehf á Höfn í Hornafirði og Kristján sonur hans hafa unnið að hönnun fjárhúsbygginga í nýjum stíl. Á fundinum kynntu Gunnar og Hreinn Sigmarsson þessa nýju hönnun sem kallast Fjárborg og ræddu margvíslega þætti tengda henni og sýndu myndir og teikningar málinu til útskýringa.

Útfærsla byggingarinnar er grundvölluð á langri umhugsun Gunnars um heppileg fjárhús og pælingum í byggingamálum almennt. Gunnar hefur úthugsað þessa nýjung með tilliti til alls konar þátta svo sem hentugleika og hagræðis fyrir bæði fjárgæslumenn og féð, vinnusparnaðar og vellíðanar, lágs byggingar- og rekstrarkostnaðar og fleira. Yfirleitt eru fjárhúsbyggingar í landinu gamlar og ekki byggðar með nútímaþarfir fjárhalds að leiðarljósi, og víða komin brýn þörf fyrir nýjar byggingar.
Megineinkenni á þessum byggingum er hringlaga form þeirra. Þvert í gegnum hringinn er vélfær gangur og rúmgott hringlaga miðrými til athafna, miðstöð gjafa, rúnings og annarrar vinnu við féð. Þar utan við eru fjárkrær sem breikka út frá miðrýminu í áttina að útveggjum. Yst í krónum er samfelld röð burðarstía sem teygir sig allan hringinn og taka má upp. Þar utan við er svo gangur allan hringinn þar sem hægt er að reka fé eftir þörfum og ganga til eftirlits og þjónustu við burðarær og fleira. Inni í krónum eru gjafagrindur sem gefið er á með vélbúnaði sem keyrir eftir bitum í lofti út frá miðrýminu. Féð gengur á taðinu og er hægt að moka með liðléttingi beint út úr húsinu eða á vagna í ganginum.
Eftir kynningu Gunnars fóru fram umræður um málið og leist mönnum sem tjáðu sig yfirleitt vel á þessa hugmynd. Dálítill hópur manna, aðallega áhrifamanna í fjárbúskap og bændaforystu ásamt hönnuðum, sat eftir þegar fundinum lauk til frekara skrafs og ráðslags um framhaldið, eftirfylgnihópur sem vinna mun að því að koma málinu lengra á veg.
Páll Imsland

