14.5 C
Selfoss

Kvennakórinn Ljósbrá fékk höfðinglegar móttökur í Litháen

Vinsælast

Síðastliðið haust ákváðu konur í kvennakórnum Ljósbrá að skoða þann möguleika að fara erlendis í skemmti- og söngferð með það að markmiði að ferðast saman, þétta hópinn og í leiðinni, syngja á ókunnum slóðum. Við erum svo heppnar að Laima Jakaite, íbúi í Rangárvallasýslu sem er tónlistarkennari, og er frá Telšiai í Litháen, benti okkur á þann möguleika að taka þátt í borgarhátíð Telšiai. Það varð úr og hjálpaði hún okkur við skipulagningu ferðarinnar og tengdi okkur við tengilið hátíðarinnar. Við undirbúning ferðarinnar óraði okkur ekki fyrir þeim höfðinglegu móttökum sem biðu okkar í þessu fallega og gróskumikla landi, Litháen. Ferðin var farin 12. – 19. júní.

Í setningarathöfn borgarhátíðarinnar í Telšiai, sem fór fram við bakka vatnsins Mastis, tóku kórkonur þátt í lautarferð þar sem fólk kemur með smakk að heiman til að deila með öðrum gestum. Þar buðu kórkonur upp á harðfisk og alíslenskar heimabakaðar flatkökur (bakaðar af kórkonum) með hangikjöti frá Sláturfélagi Suðurlands. Við setningu hátíðarinnar söng kórinn tvö lög við frábærar móttökur. Síðar þennan sama dag söng kórinn ásamt kór menningarmiðstöðvarinnar í Telšiai við lok messu í dómkirkju bæjarins og var kirkjan þéttsetin. Hljómburðurinn í kirkjunni var slíkur að upplifunin var algjörlega einstök. Í lok dags var kórnum ásamt mökum og kór menningarmiðstöðvarinnar í Telšiai boðið til veislu, okkur til heiðurs í Samogitian Village Museum, í boði þjóðlagahljómsveitarinnar Spegens frá menningarmiðstöð Telšiai og stjórnanda hennar, Diana Bumblauskienė. Boðið var upp á sveitamat, þann sem Litháar borðuðu til forna og einnig litháískan bjór og heimabruggað brennivín. Þar var okkur einnig kennt að dansa nokkra þjóðdansa með misjöfnum árangri en þetta var afskaplega skemmtilegt og gaman að sjá að þjóðdansarnir eru bara alls ekki ólíkir okkar þjóðdönsum.

Hvert sem við fórum í Telšiai, í skoðunarferðir, á söfn eða á veitingastaði höfðu allir heyrt um kórinn frá Íslandi sem var á ferðinni. Alls staðar var tekið vel á móti okkur og allir svo þakklátir Íslendingum fyrir að hafa verið fyrsta þjóðin til að staðfesta sjálfstæði Litháen. Þarna fundum við sterkt hversu miklu máli þetta skiptir fyrir Litháa og hefur enn mikla þýðingu þó að liðin séu 34 ár.

Ljósmynd: Aðsend.

Eftir veru okkar á þessum einstaklega fallega stað, Telšiai, héldum við til höfuðborgarinnar Vilnius. Okkur langaði til að gera eitthvað sérstakt þar, bara eitthvað létt og laggott í tilefni þjóðhátíðardagsins okkar. Með aðstoð ræðismanns Íslands í Helsinki fengum við samband við kjörræðismann Íslands í Vilnius sem, ásamt íslenskum starfsmanni utanríkisráðuneytisins hjá NATO, tengdu okkur við ráðhúsið í Vilnius og hófst þá skipulagning á tónleikum. Úr varð að kórinn Jauna muzika (blandaður kór) og við, kvennakórinn Ljósbrá, vorum með tónleika þriðjudaginn 17. júní á tröppum ráðhússins í Vilnius. Þegar upp var staðið höfðu margar hendur komið að undirbúningi og skipulagi tónleikanna. Sett var upp hljóðkerfi, rafmagnspíanó fengið að láni hjá tónlistarskóla, kynnir fenginn sem kynnti bæði á ensku og litháísku, send var út fréttatilkynning og allt skipulagt til hlítar.

Það yljaði okkur um hjartað að mæta í ráðhúsið þennan dag. Þjóðfánum Íslands og Litháen var flaggað ásamt fána Vilnius og íslensk tónlist spiluð á torginu fyrir alla sem þar áttu leið, bæði fyrir og eftir tónleikana. Tekið var á móti okkur af mikilli virðingu. Kórarnir sungu til skiptis og enduðu báðir kórar á að syngja þjóðsöngva sinnar þjóðar. Kynnirinn talaði meðal annars um þakklætið sem litháíska þjóðin ber til Íslendinga og átti það vel við þennan dag þegar við fögnuðum sjálfstæði Íslendinga en ekki síður mikilvægt á þessum tímum óróleika í heiminum að muna mikilvægi sjálfstæðis þjóða, kærleika og gagnkvæmrar virðingar við náungann.

Við í kvennakórnum Ljósbrá erum fullar þakklætis til allra þeirra sem aðstoðuðu við skipulag og undirbúning þessarar ferðar. Litháen er land sem vert er að heimsækja; það er bæði hreint og afskaplega fallegt og íbúarnir mjög jákvæðir, hjálpsamir og skemmtilegir. Við sveitatútturnar að sunnan ásamt mökum geymum þessa vikuferð á góðum stað í minningarbankanum. Takk fyrir okkur, Litháen.

Gyða Á Helgadóttir,
formaður Kvennakórsins Ljósbrá.

 

Nýjar fréttir