Nú gæti 38 ára saga Álnavörubúðarinnar í Hveragerði verið á enda eftir að Kjörís sagði upp leigusamningi þeirra nýlega. Verslunin óskar nú eftir nýju 250 fermetra húsnæði í Hveragerði svo að hún geti haldið áfram starfsemi sinni.
Dóróthea Gunnarsdóttir eigandi Álnavörubúðarinnar segir í samtali við mbl.is að hún hafi ekki áhuga á að færa starfsemina út fyrir Hveragerði. „Hveragerði er heillandi bær og hér fæst allt til alls, nema kannski álnavaran,“ segir hún.
Dóróthea segir einnig að hún viti ekki í hvað Kjörís ætli sér að nota húsnæðið.
Valdimar Hafsteinsson framkvæmdastjóri Kjöríss segir ástæðu uppsagnarinnar vera að húsið sé að fara í aðra notkun en ekki liggi fyrir hver sú notkun verði.
„Það þarf að fara í miklar og kostnaðarsamar endurbætur við þetta húsnæði, það er búið að vera í viðhaldsþörf. Í kjölfarið þarf síðan að endurskoða leigusamninga og notkun á húsnæðinu,“ segir hann í samtali við mbl.is og bætir við að ólíklegt sé að leigusamningurinn verði endurnýjaður við Álnavörubúðina.